Borgarstjórinn í Reykjavík ætlar ekki að láta miðborgina breytast í draugahverfi þrátt fyrir kreppu og samdrátt. Borgaryfirvöld ætla að halda sínu striki í að gera upp gömul hús sem þau hafa keypt í því skyni. Sérstakt átak verður gert til að fegra miðborgina og auðir verslunargluggar verða nýttir fyrir hönnun og list.
Húsin sem Reykjavíkurborg keypti fyrir hálfan milljarð til að gera upp í upprunalegri mynd til að laða fram nítjándu aldar götumynd Laugavegar verða gerð upp á næstunni en ætlunin er síðan að selja þau þegar betur árar.
Þá verður einnig hafist handa við að endurbyggja húsin sem brunnu á horni Lækjargötu og Austurstræti lítið nýtilegt stóð eftir af þeim, raunar einungis arininn af öðru þeirra. 560 milljónum á að verja til verksins en fornleifarannsóknir hafa tafið fyrir að undanförnu. Ákveðið hefur verið nú að gera húsin upp annars staðar en flutt á reitinn þegar þau eru tilbúin í febrúar á næsta ári.
Auðir verslunarglugggar við Laugaveginn, þar sem margir verslunarmenn hafa gefist upp að undanförnu vegna efnahagsástandsins, fara í fegrunaraðgerð á næstunni. Hönnunarmiðstöð Íslands vill nýta gluggana fyrir list og hönnun. Þá ætla borgaryfirvöld að ráðast í sérstakt átak til að fegra útivistarsvæði í miðborginni. Sjá MBL sjónvarp.