Á efstu hæð hússins að Síðumúla 34 í Reykjavík var íbúð sem fór hvað verst út úr eldi sem kviknaði á þaki hússins í gær. Karlmaður á þrítugsaldri hafði búið í íbúðinni í rúman mánuð og missti hann allt sitt í eldsvoðanum. Í gærkvöldi var verið að setja spónaplötur fyrir glugga sem sprungið höfðu í hitanum.
Engan sakaði í eldsvoðanum sem rekja má til þess að viðgerðarmenn voru að bræða dúk á þakið. Vegfarendum var nokkur hætta búin vegna gaskúta sem voru á þakinu. Þeir sprungu og kom einn þeirra fljúgandi ofan af þakinu.
Á þriðju hæð hússins er Íslensk tónverkamiðstöð til húsa. Þar eru átta þúsund tónverk sem voru í stórhættu, helst vegna vatnsskemda. Betur fór en á horfðist og var það ekki síst að þakka slökkviliðsmönnum sem breiddu plast yfir möppurnar. Unnið var að þurrkun í gærkvöldi.