„Taldi mig hafa þekkingu og reynslu“

Gunnar Páll Pálsson
Gunnar Páll Pálsson mbl.is

Gunnar Páll Pálsson, fráfarandi formaður VR, segir úrslit formannskosninganna í dag vissulega vonbrigði en niðurstaðan sé hinsvegar skýr. „Ég hafði enga tilfinningu fyrir því, þótt ég hafi verið vongóður,“ segir Gunnar Páll aðspurður hvort hann hafi skynjað í hvað stefndi á meðan kosningabaráttunni stóð.

„Það er ljóst að í kjölfar gagnrýni á mig eftir fall bankanna í haust að það hefur vegið þungt og það val mitt að axla ábyrgð og stytta kjörtímabil mitt skilar þessari niðurstöðu, svo maður verður bara að una henni,“ segir Gunnar Páll, en efnt var til kosninganna í kjölfar mikillar óánægju meðal félagsmanna eftir að í ljós kom að hann sat í lánanefnd gamla Kaupþings þar sem ýmsar umdeildar ákvarðanir voru teknar áður en bankinn var þjóðnýttur.

Gunnar Páll segir að kosningabaráttan hafi verið hörð og honum hafi á stundum þótt veist harkalega að sinni persónu. „Mér fannst það, það féllu þung orð og allt sem maður hefur gert var gert tortryggilegt. En ég vona bara að þeir sem taki við gangi vel að vinna að hagsmunum félagsmanna VR,“ segir Gunnar Páll og játar að það sé vonbrigði að geta ekki tekið þátt í þeim miklu áskorunum sem nú eru framundan. „Ég taldi mig hafa þekkingu og reynslu til að verða að liði í þeirri baráttu, en það er greinilega ekki eftirspurn eftir þeim starfskröftum.“ 

Nýr formaður VR, Kristinn Örn Jóhannesson, tekur við á aðalfundi félagsins þann 2. apríl næstkomandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka