Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á fréttamannafundi í gær, að ekki væri víst að þingrof yrði tilkynnt á fimmtudag í næstu viku, eins og áður hafði verið ráðgert. Ástæðan er sú hversu mörg mál eru óafgreidd í þinginu. „Mér finnst málin ganga það hægt í þinginu að menn þurfi að fara yfir þessa stöðu sem upp er komin,“ sagði hún.
Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gagnrýna ræðuhöld sjálfstæðismanna á þinginu í fyrradag og hægagang þingsins við lokaafgreiðslu mála.
Ætla þau að ræða við bæði fulltrúa stjórnarflokka og stjórnarandstöðu í vikunni, fara yfir öll mál sem ríkisstjórnin vill afgreiða áður en þinginu lýkur svo ljóst verði hvenær hægt verður að ljúka þingstörfum.