Fréttaskýring: Þurfa að laga sig að sumarlokun leikskóla

mbl.is/Ómar

Margir leikskólar í höfuðborginni verða lokaðir í fjórar vikur í sumar. Algengast er að þeir séu lokaðir frá 13. júlí til 10. ágúst. Er tilgangurinn sá meðal annars að ná fram sparnaði með því að ráða færra fólk í sumarafleysingar en venjulega. Engu að síður þarf að ráða nokkurn fjölda sumarstarfsmanna, því starfsmenn leikskólanna eiga rétt á 5-6 vikna sumarleyfi.

Nokkurrar óánægju gætir meðal foreldra vegna þessa, enda eru ekki allir foreldrar svo heppnir að fá sumarfrí á sama tíma og leikskólar barnanna eru lokaðir.

Í bréfi, sem foreldri skrifaði til borgarinnar vegna sumarlokana, segir að það að loka leikskóla barnsins í fjórar vikur samfleytt sé enn eitt skrefið afturábak í þjónustu leikskólanna, ekki síst á þeim tímum sem nú eru í þjóðfélaginu.

Atvinnurekendur spara

„Fæst fyrirtæki í landinu geta leyft sér að loka sisvona og skrúfa þar með fyrir þjónustu sína í mánuð af árinu. Má búast við því að fólki verði nú settar þrengri skorður en áður í því hvenær því gefst kostur á að taka sumarleyfi sitt frá vinnustað – því líkt og Leikskólar Reykjavíkur leitast atvinnuveitendur við að spara eins og kostur er í ráðningu sumarstarfsfólks. Munurinn er hins vegar sá að Leikskólar Reykjavíkur eru opinber þjónustustofnun, sem hefur það hlutverk að þjónusta fjölskyldur borgarinnar, og nýta til þess útsvarstekjur sem þessar sömu fjölskyldur greiða í borgarsjóð,“ segir í bréfinu, sem væntanlega endurspeglar skoðanir fleiri foreldra í borginni.

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðsstjóri leikskólasviðs, segir að flestum leikskólum Reykjavíkurborgar sé lokað ýmist í tvær eða fjórar vikur vegna sumarleyfa. Engu að síður verði lögð áhersla á að veita börnum og foreldrum þeirra sem besta þjónustu. Liður í því sé að bjóða þeim foreldrum sem ekki geta tekið sumarleyfi á sama tíma og börn sín upp á þann möguleika að vista börnin tímabundið í þeim leikskólum sem hafa opið í allt sumar. Ragnhildur segir að starfsmenn leikskólanna og ráðgjafar á aðalskrifstofu muni leggja kapp á að sú ráðstöfun gangi snurðulaust og hvetur foreldra til að snúa sér til þeirra ef vandamál koma upp.

Sumarlokun talin æskileg

Ragnhildur segir að það sé skoðun langflestra leikskólastjóra að sumarlokun leikskóla sé æskileg. Með því skapist m.a. skýr skil á milli leikskólaára, starfið verði markvissara og alltaf séu reyndir starfsmenn á staðnum. Þá séu vinir barnanna í leikskólanum í fríi á sama tíma.

„Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hve mjög aðstæður í þjóðfélaginu hafa breyst á undanförnum mánuðum. Gæta þarf aðhalds í öllum rekstri borgarinnar og eru leikskólarnir þar engin undantekning,“ segir Ragnhildur Erla.

Að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, hafa kvartanir vegna lokana leikskóla ekki komið inn á borð samtakanna, enn sem komið er að minnsta kosti. Samtökin leggi áherslu á að sveitarstjórnir bjóði upp á úrræði fyrir foreldrana svo lokanirnar þurfi ekki að hafa áhrif á rekstur fyrirtækja í landinu.

ÓÞÆGINDI LÍTIL

Í ljósi þess lét Reykjavíkurborg framkvæma rannsókn haustið 2004 á afstöðu foreldra til sumarlokana í leikskólum borgarinnar og var hún unnin af Gallup.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu meðal annars að 75,8% foreldra töldu að lokun leikskólans hefði valdið litlum eða engum óþægindum, 69% foreldra töldu að mjög eða frekar auðvelt hefði verið að fá sumarleyfi á sama tíma og barnið. Um 94% barna dvöldu hjá foreldrum eða forráðamönnum sínum þann tíma sem leikskólinn var lokaður, að því er fram kom í könnuninni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert