100 milljónir í Laugaveg 4 og 6

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, sagði á fundi borgarráðs í morgun að lagt sé til að 100 milljónum verði varið í að gera húsin að Laugavegi 4 og 6 tilbúin undir tréverk í ár. Er þetta svar borgarstjóra við spurningum Samfylkingarinnar um framkvæmdir við húseignirnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn var tilefni fyrirspurnarinnar sú að lítið fé var til verkefnisins í fjárhagsáætlun ársins og því ljóst að húsið stæðu óhreyft fram til ársins 2010.

„Af gögnum málsins er ljóst að tap borgarinnar vegna uppkaupa húsanna fyrir ári síðan verður meira en 500 milljónir, einsog fram kemur í bókun Samfylkingarinnar sem lögð var fram á fundinum," segir Dagur í tilkynningu.

Bókun Samfylkingarinnar um kostnað við Laugaveg 4 og 6

„Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna kaupanna á húsunum við Laugaveg 4 og 6 í janúar á síðasta ár er orðinn hátt í 700 milljónir. Þá hefur 580 milljóna króna kaupverð verið uppreiknað miðað við verðbætur og 4% vexti.

Nú er ljóst að 100 milljónum á að verja í ytra byrði húsanna og gera húsin tilbúin undir tréverk. Þá er ótalinn kostnaður við að flytja Laugaveg 6 af staðnum þegar byggt verður á baklóðinni – og til baka þegar þeirri uppbyggingu er lokið, einsog áform meirihlutans gera ráð fyrir.

Því er ljóst að jafnvel þó húsin yrðu leigð út eða seld á næstu árum fyrir hámarksverð er ljóst að fórnarkostnaður Reykjavíkurborgar verður töluvert yfir hálfum milljarði króna vegna hinna makalausu kaupa á Laugavegi 4 og 6. Allt vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi stöðva friðun húsanna sem þá var í formlegu ferli."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert