Fyrrum vistmenn í Breiðavík beðnir afsökunar

Breiðavík.
Breiðavík. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, bað í dag fyrrum vistmenn í Breiðavíkurheimilinu og fjölskyldur þeirra afsökunar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og íslensku þjóðarinnar á þeirri ómannúðlegu meðferð, sem vistmennirnir voru látnir sæta. 

Jóhanna bað jafnframt alla þá afsökunar, sem hefðu verið vistaðir á öðrum stofnunum eða heimilum á vegum opinberra aðila, og sætt þar illri meðferð og ofbeld.

Jóhanna gaf þessa yfirlýsingu í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag eftir að Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði um málið. Hún sagði, að ekki væri hægt að ætlast til að slík fyrirgefnin væri veitt nema þessi kafli í sögu íslenskra barnaverndarmála verði gerður upp. Hafist hefði verið handa við það verk í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá væri jafnframt hafin könnun á meðferð barna og unglinga á mörgum vistheimilum og væri skýrsla væntanleg í júní.

Jóhanna sagði, að hugmyndir hefðu verið settar fram um bótagreiðslur til fyrrum vistmanna í Breiðavík, sem Breiðavíkursamtökin hefðu gert miklar athugasemdir við. Fundir hefðu verið haldnir milli embættismanna forsætisráðuneytisins og fulltrúa samtakanna um málið. 

„Við skuldum þeim aðilum, að niðurstaðan um bótagreiðslurnar verði gerð í bærilegri sátt við þessi samtök," sagði Jóhanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka