Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sakar Helga Magnússon, formann Samtaka iðnaðarins um að kalla eftir andrúmslofti þöggunar á ný.
„Það er von undirritaðs að andrúmsloft þöggunar sem Helgi Magnússon kallar eftir (í nafni ábyrgðar, fagmennsku og yfirvegunar) verði feykt burt af öflugri og opinni umræðu án lítt dulbúinna hótana frá forsvarsmönnum hagsmunasamtaka," segir Þórólfur í yfirlýsingu sem hann hefur sent fjölmiðlum.
Tilefnið er athugasemd, sem Helgi gerir við pistil, sem Þórólfur skrifar á vefsíðu Samtaka iðnaðarins. Þar segir Helgi m.a. að hann voni að hér eftir hugsi Þórólfur og aðrir sérfræðingar sig vel um áður en þeir tjá sig um viðkvæm mál við fjölmiðla.
„Þessi ummæli Helga Magnússonar eru ekki samboðin þeim sem vilja standa að opinni og heiðarlegri umræðu um þjóðfélagsmál," segir Þórólfur. „Kannski hefði sú efnahagskreppu sem nú hrjáir íslenskt hagkerfi valdið minni skaða hefðu fleiri starfsmenn Háskóla Íslands talað hærra og meira um áhyggjur sínar af þróun mála. Það var þó ekki auðvelt því fræðimenn sem tóku til máls máttu eiga von á viðbrögðum af því tagi sem formaður Samtaka iðnaðarins vill nú hefja til vegs og virðingar á ný. Þarf nokkuð að rifja upp hver voru viðbrögð þungaviktarmanna úr atvinnulífinu við umfjöllun Gylfa Magnússonar, Vilhjálms Bjarnasonar og Þorvaldar Gylfasonar um bágar undirstöður íslenskra fyrirtækja og íslensku útrásarinnar á liðnum árum?"