Klukkan fjögur í nótt hófst Guðlaugssundið í Sundhöll Vestmannaeyja en aldrei áður hafa jafn margir verið skráðir í sundið en í ár. Sundið hefur verið haldið árlega frá 1985 en þá höfðu nemendur Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum frumkvæði að því að synda þá vegalengd sem Guðlaugur Friðþórsson hafði synt í ísköldum og úfnum sjónum árið áður, að því er fram kemur á fréttavefnum Suðurlandið.
Síðan þá hefur sundið verið haldið árlega en Friðrik Ásmundsson, fyrrum skólastjóri Stýrimannaskólans hefur haldið utan um það.
Eins og áður sagði hafa aldrei fleiri þreytt sundið en í ár en þátttakendur eru í heildina 53 talsins. Vegna sundsins þurfti að breyta opnunartíma sundlaugarinnar en 12 af hópnum synda allt sundið á meðan hinir synda í hópum og skipta vegalengdinni á milli sín. Meðal hópa sem taka þátt í sundinu er lið heilsugæslunnar í Vestmannaeyjum en sex syntu 40 ferðir hvert.
Þá má geta þess að Sóley Haraldsdóttir synti allt sundið í nótt en Sóley verður þrettán ára í næsta mánuði en er að synda Guðlaugssundið í þriðja sinn. Þá syntu feðgarnir Magnús Kristinsson, útgerðarmaður og Magnús Berg allt sundið en Magnús eldri er með brjósklos í baki en lét það ekki stoppa sig.