Fréttaskýring: Fleira hættulegt en herir og hryðjuverk

Hætta á hryðjuverkaárás á Ísland er lítil en mun meiri …
Hætta á hryðjuverkaárás á Ísland er lítil en mun meiri ógn er m.a. talin steðja að Íslendingum vegna skipulagðra glæpa. mbl.is/Eggert

Efnahagshrunið hefur veikt innviði íslensks samfélags og grafið undan öryggi þess í víðum skilningi. Það leiddi til víðtæks efnahagslegs og félagslegs óöryggis og olli tímabundið pólitískum óstöðugleika. Jafnframt verður erfiðara að fjármagna ýmiss konar starfsemi sem lýtur að öryggis- og varnarmálum.

Þetta kemur fram í áhættumatsskýrslu um Ísland sem þverfaglegur hópur á vegum utanríkisráðuneytisins, undir formennsku Vals Ingimundarsonar sagnfræðiprófessors, hefur skilað og kynnt var á fundi með blaðamönnum í utanríkisráðuneytinu gær. Starfshópurinn var skipaður af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þáverandi utanríkisráðherra, í október árið 2007. Í honum sátu alls þrettán manns en hópurinn kallaði m.a. til sín innlenda og erlenda sérfræðinga.

Skýrslan er mjög yfirgripsmikil og tekur til margra þátta er tengjast öryggis- og varnarmálum á breiðum grunni, enda var lögð áhersla á að útvíkka öryggishugtakið. Sambærilegar skýrslur hafa verið unnar reglulega í nágrannaríkjum okkar en eru nýjung hér á landi. Við kynningu á skýrslunni sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að skýrslan væri fróðleg og afar vel unnin. Þó að skýrslan væri á ábyrgð höfundanna sagðist hann vera í meginatriðum sammála þeim.

Útvíkkað öryggishugtak

Í inngangi Vals Ingimundarsonar kemur fram að skilningur á öryggi hafi tekið miklum breytingum á undanförnum tveimur áratugum. Í stað þess að miða eingöngu við ríkisvaldið, hervarnir eða ógnir frá ríkjum eða ríkjabandalögum, eins og í kalda stríðinu, hafi öryggishugtakið verið víkkað út með það fyrir augum að ná yfir nýjar ógnir, þ.e. áhættuþætti eins og skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverk, efnahagskreppu, ólöglega fólksflutninga, mansal, matvælaöryggi, náttúruhamfarir, farsóttir, umhverfisslys og fjarskipta-, net- og orkuöryggi.

Meðal niðurstaðna skýrsluhöfunda er að engar vísbendingar séu um að hernaðarógn muni á næstu árum steðja að Íslandi. Pólitísk afstaða á alþjóðavettvangi og þátttaka í alþjóðlegum aðgerðum geti hins vegar falið í sér ákveðna áhættu.

Ýmsar aðrar ógnir geta steðjað að Íslendingum, eins og farsóttir sem geti komið fram með reglulegu millibili. Líkur á hættuástandi vegna náttúruhamfara eru viðvarandi, segir í skýrslunni, en hætta á hryðjuverkaárás á Ísland telst lítil. Á hinn bóginn geti hryðjuverkamenn viljað nota landið sem griðastað.

Skipulögð glæpastarfsemi er sögð vaxandi hér á landi og snerta marga þætti eins og fíkniefnasmygl, ofbeldi, peningaþvætti og mansal. „Full ástæða er til að óttast að aukin harka, þar með talinn vopnaburður, verði viðtekin í íslenskum undirheimum á næstu árum og setji mark sitt á skipulagða glæpastarfsemi hér á landi,“ segir í skýrslunni. Þar segir ennfremur að hlutur neðanjarðarhagkerfis aukist vegna efnahagshrunsins. Þannig muni hagnaður af fíkniefnaviðskiptum verða t.d. notaður til fjárfestinga hér á landi og að markaður með stolnar vörur muni stækka. Farið er yfir fleiri atriði sem hætta getur stafað af, eins og net- og matvælaöryggi, en hér til hliðar eru nokkrar helstu ábendingar sem skýrsluhöfundar leggja fram.

Skýrsluna sjálfa má nálgast á vef utanríkisráðuneytisins

Til öryggis

*Marka skýra þjóðaröryggisstefnu og útvíkka skilgreiningu á öryggi.

*Komið verði á neyðaraðgerðastjórn stjórnvalda til að bregðast við ógn.

*Skilgreina þarf betur stöðu varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

*Endurnýja umræðu um stöðu Íslands í NATO og framlag til bandalagsins.

*Efla samvinnu Norðurlanda á sviði öryggismála, t.d. í eftirliti og vöktun.

*Fylgjast áfram með herflugi og ferðum kjarnorkubáta nálægt Íslandi.

*Styrkja samskipti við nágrannaríki í öryggismálum á norðurslóðum.

*Styrkja samstarf við ESB vegna áhættuþátta eins og glæpa, farsótta, náttúruhamfara og hryðjuverka.

*Mælt með samstarfi stofnana sem sinna öryggis- og varnarmálum.

*Auka birgðir matvæla og koma upp neyðarbirgðum af olíu.

*Efla samráð ríkisvalds og einkafyrirtækja á sviði öryggismála, einkum varðandi fjarskipta- og netöryggi.

*Efla innlendar mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum.

*Tryggja betur ljósleiðarakerfið og bæta öryggi háspennulína.

*Tryggja betur öryggi og réttindi erlendra ríkisborgara á Íslandi.

*Tryggja lögreglu búnað og heimildir til að glíma við glæpastarfsemi.

*Gera áætlanir til að bæta orðspor Íslands á alþjóðavettvangi.

*Efla þarf eftirlit með flutningi hættulegra efna milli staða á Íslandi.

*Uppfæra áhættumatsskýrslur vegna tíðra breytinga í öryggismálum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert