Eftir miklar umræður og á köflum harðar deilur lauk fyrstu umræðu um frumvarp forsætisráðherra til stjórnskipunarlaga kl. 16 í gær og gekk það til sérnefndar. Umræður höfðu þá staðið yfir í alls rúmlega 12 stundir.
Ekki varð annars vart við umræðuna en að þingmenn stjórnarflokkanna og bæði Framsóknar og Frjálslynda flokksins stæðu einhuga að baki frumvarpinu. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa á hinn bóginn haft uppi mjög harða gagnrýni á frumvarpið og ekki síður tildrög þess og vinnubrögð. Verði breytingarnar samþykktar á þingi eftir kosningar og efnt verður til kjörs á stjórnlagaþing, bendir fátt til annars en að það verði í óþökk sjálfstæðismanna og í harðvítugar deilur stefni allt fram á síðari hluta ársins.
Við umræðurnar á Alþingi kom þó stöku sinnum fram vilji til að ná sáttum um breytingar á stjórnarskrá. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sem sló ekkert af gagnrýni sjálfstæðismanna á málið, sagði að ná þyrfti samkomulagi og sátt um breytingar á stjórnarskránni. Sjálfstæðismenn væru tilbúnir til þess ef látið yrði á það reyna en það væri ekki fullreynt. ,,Takið í okkar útréttu sáttahönd,“ sagði hún. Fleiri þingmenn flokksins töluðu á sama veg og sögðu skynsamlegra að setjast niður og reyna að finna sem víðtækasta sátt um breytingar.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.