Geir mótmælir ásökunum

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom í ræðustól Alþingis í dag og mótmælti harðlega ásökunum um að hann hefði gefið rangar upplýsingar í skriflegu svari um hugsanlegt tilboð breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans í aðdraganda bankahrunsins.

Geir óskaði eftir því að bera af sér sakir og sagði að Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, hefði í utandagskrárumræðu um Icesave-málið í dag, og einnig í við annað tækifæri, gefið til kynna að Geir hafi gefið þinginu rangar upplýsingar í skriflegu svari við fyrirspurn frá henni um einn þátt bankahrunsins.

„Að sjálfsögðu hef ég ekki  gefið þinginu rangar upplýsingar og ég mótmæli því að á mig sé borinn slíkur áburður. Ég mótmæli því," sagði Geir.

Sagði hann að Siv ætti að kanna það hvort einhver fótur væri yfirleitt fyrir því sem kallað hefði verið tilboð á síðustu stundu frá breska fjármálaeftirlitinu um að það myndi  gegn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu  færa reikninga Icesave yfir í breska lögsögu.

„Hvað menn segja í örvæntingu sinni um miðja nótt er eitt og kannski ekki mikið mark á því takandi. En að koma síðan hér og bera á forsætisráðherrann að hann hafi sagt þinginu ósatt er óboðlegt og ég sætti mig ekki við það," sagði Geir.

Siv sagðist hafa spurt forsætisráðherra á sínum tíma hvort hann hefði vitað af þessu svokallaða tilboði, sem var í fjölmiðlaumræðu á sínum tíma, áður en Landsbankinn var tekinn yfir. Þessu hefði Geir, sem þá var forsætisráðherra, svarað neitandi. Einnig hefði hún spurt hann hvort embættismenn eða ráðgjafar hans hefðu haft slíka vitneskju og svarið var: Ekki svo ráðherra hafi verið kunnugt.

Síðan hefði birst frétt um síðustu helgi þar sem Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrum efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, sagðist hafa sagt Geir frá þessu svokallaða tilboði mánudaginn 6. október, daginn sem neyðarlögin voru sett. „Það er þetta sem ég sagði hér áðan og ég sagði einnig að ég vonaði að hæstvirtur forsætisráðherra hefði sagt þinginu rétt frá. Nú hefur hann  staðfest það  í þingsal," sagði Siv.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert