Kaupþing og Almenni lífeyrissjóðurinn ætla að innheimta þóknun fyrir að greiða út hluta af séreignarsparnaði. Drög að reglugerð fjármálaráðuneytisins heimilar þóknun sem nemur allt að 1% af þeirri upphæð sem tekin er út. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.
Almenni lífeyrissjóðurinn, sem rekinn er af eignastýringu Íslandsbanka, ætlar að taka 0,5% þóknun. Í tilkynningu frá þeim kemur fram að þetta sé gert til að standa straum af kostnaði vegna útgreiðslna. Ef tekin er út milljón þýðir þetta fimm þúsund krónur í þóknun, sem þýðir að milljónin er orðin að 620.000 krónum eftir að greiddir hafa verið skattar af upphæðinni.
Nýi Landsbankinn hefur ekki ákveðið hvort tekin verði upp þóknun. Nýja Kaupþing ætlar hins vegar að gera það, en ákveður ekki hversu há hún verður fyrr en fjármálaráðuneytið hefur gefið út reglugerðina. Lífeyrissjóður Verslunarmanna og LSR ætla hins vegar ekki að innheimta þóknun, samkvæmt frétt RÚV.