Örlög dvalarheimilisins Helgafells á Djúpavogi ættu að ráðast fyrir lok næstu viku. Starfsfólki heimilisins var sent uppsagnarbréf fyrir síðustu mánaðamót og óttuðust íbúar bæjarins að rekstri yrði hætt og vistmenn fluttir á Egilsstaði eða Höfn.
Ráðist var í undirskriftasöfnun og var heilbrigðisráðherra í gær afhentur listi með nöfnum fjölmargra íbúa. Ráðherrann segist vongóður um að niðurstaða náist sem íbúar á Djúpavogi geti sætt sig við.
Allt þar til í janúar 2008 rak Djúpivogur dvalarheimilið og án undantekninga með halla. Þegar sveitarfélagið sjálft lenti í fjárhagsvandræðum var leitað til ríkisins sem tók það undir sinn verndarvæng. Var heimilið innlimað í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA).
Í nýlegri stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á HSA er sérstaklega vikið að dvalarheimilinu og því beint til heilbrigðisráðuneytisins að taka reksturinn til gagngerrar endurskoðunar. Bent var á að vistmenn væru í raun hjúkrunarsjúklingar sem ekki fengju þá faglegu þjónustu sem þeim bæri. „Aðstaða á Helgafelli og mönnun tekur ekki tillit til þessarar staðreyndar né heldur sú fjárveiting sem HSA fær fyrir rekstrinum. Þetta veldur bæði heimilismönnum og starfsmönnum Helgafells, sem allir eru ófaglærðir, óöryggi og vanlíðan að eigin sögn,“ segir í skýrslunni.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.