Mat Landsbankans of bjartsýnt?

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að ekki væru allir jafn bjartsýnir og skilanefnd Landsbankans á hve miklar eignir Landsbankans í Bretlandi verði endurheimtar. Viðræður við bresk stjórnvöld um uppgjör Icesave-ábyrgðanna munu væntanlega hefjast síðar í þessum mánuði.

Þingmenn ræddu utan dagskrár í dag um hagsmuni Íslands vegna Icesave ábyrgðanna að ósk Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokks. Siv sagði m.a. að misvísandi tölur hefðu komið fram um þessar ábyrgðir og spurði Steingrím hverjar þær væru í raun.

Steingrímur sagði, að þær ábyrgðir, sem Ísland þyrfti að axla vegna Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi séu um 600 milljarðar króna á núverandi gengi. Upp í þetta kunni að endurheimtast eignir Landsbankans í Bretlandi, ef þær verða losaðar eftir 3-5 ár þannig að eftir standi 70-75 milljarða skuldbinding, að mati skilanefndar Landsbankans. Steingrímur sagði að ekki væru þó allir jafn bjartsýnir á þetta mat og það væri háð mikilli óvissu.

Steingrímur sagði, að því miður lægi fyrir, að tengsl væru milli þessa máls og áætlunarinnar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og einnig væru tengsl milli þessa máls og samningum Íslendinga við Norðurlönd og önnur lönd um gjaldeyrislán. Því yrðu Íslendingar að ná samkomulagi um þetta uppgjör en hins vegar væri ljóst, að ekki yrði skrifað undir hvað sem er.

Siv og fleiri þingmenn lýstu þeirri skoðun, að betra væri að flýta sér hægt í samningaviðræðunum og sögðu að tíminn ynni með Íslendingum. Steingrímur sagði, að þrýstingur væri á Íslendingum að þessu máli væri hraðað og miðað hefði verið við, þegar gert var samkomulag um málsmeðferðina, að samningaviðræðum yrði lokið innan 6 mánaða. Hins vegar þekktu viðsemjendur Íslands hver staðan væri hér á landi og hvað hefði gerst á síðustu vikum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert