Barack Obama Bandaríkjaforseti áréttar stuðning Bandaríkjastjórnar við hvalveiðibannið. Á þetta benda Náttúruverndarsamtök Íslands og vitna í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu í síðustu viku.
Samkvæmt Náttúruverndarsamtökunum segir í yfirlýsingu Hvíta hússins að Bandaríkjastjórn hafi verulegar áhyggjur vegna aðgerða íslenskra og norskra fyrirtækja til að endurræsa alþjóðlega verslun með hvalaafurðir. Markmið Bandaríkjastjórnar sé engu að síður að ná viðunandi málamiðlun.
Mikilvægast þykir Náttúruverndarsamtökunum að Hvíta húsið skuli undirstrika að þótt engin málamiðlun náist á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní skuldbindi Bandaríkjastjórn sig til að ná fram viðunandi málamiðlun. Því sé hætt við að Bandaríkjastjórn líti á nýlegar ákvarðanir íslenskra stjórnvalda um að stórauka hvalveiðar hér við land sem tilraun til að skaða það samningsferli sem hófst fyrir rúmu ári.