Sala á styrktarmiðum átaksins Karlmenn og krabbamein hefur gengið ágætlega, en lokahnykkur átaksins verður nú um helgina. Þegar sölutölur voru skoðaðar í vikunni kom í ljós að ein, fremur smá, Krónuverslun var farin að selja umtalsvert meira en nokkur önnur verslun, að því er fram kemur í tilkynningu.
Þegar grennslast var fyrir um málið kom í ljós að einn starfsmaður verslunarinnar, Sigríður Höskuldsdóttir, hafði efnt til samkeppni um sölu á miðunum, bæði til að auka sölu og halda uppi skemmtilegum anda í vinnunni. Samkeppnin gekk þó ekki mjög lengi þar sem annar starfsmaður, Elínborg Pálsdóttir, hafði á tveimur dögum náð að selja svo marga miða að hún dæmdist ótvíræður siguvegari.
Krabbameinsfélagið heillaðist af þessum eldmóð og ákvað því að koma starfsfólkinu á óvart með verðlaunum: Gjafabréf handa öllum frá Subway og svo 10.000 kr. gjafabréf frá NTC og forláta YSL gloss frá Krabbameinsfélaginu til handa söluhæsta starfsmanninum – Elínborgu Pálsdóttur.