Annir hafa færst mjög í aukana á Alþingi seinustu daga. Þingfundir hafa staðið yfir langt fram eftir kvöldi með löngum umræðum um umdeild mál hvert kvöld vikunnar. Í gær lauk fyrstu umræðu um stjórnskipunarfrumvarp ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokks og Frjálslynda flokksins.
Síðdegis var boðað til þingfundar á ný þar sem mælt var fyrir stjórnarfrumvörpum. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um atvinnuleysistryggingar, Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi um auknar heimildir sérstaks saksóknara vegna efnahagshrunsins. Þá fór af stað heit umræða um mál iðnaðarráðherra um samninga um álver í Helguvík. Þingfundur hefst kl. 10.30 í dag.