Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði mjög umfangsmikla kannabisræktun í húsi í Laugardalshverfinu í gærkvöld. Við húsleit á áðurnefndum stað fundust nokkur hundruð kannabisplöntur á ýmsum stigum ræktunar. Tveir karlar og ein kona voru handtekin í þágu rannsóknarinnar en fólkið eru nú laust úr haldi lögreglu, að því er fram kemur í tilkynningu.
Mennirnir, sem hafa áður komið við sögu hjá lögreglu, eru á fimmtugs- og sextugsaldri en konan er á fertugsaldri. Þess má geta að fyrir nokkrum dögum stöðvaði lögreglan kannabisræktun í Breiðholti en talið er að málin tengist. Samtals er um að ræða rúmlega 400 kannabisplöntur sem voru haldlagðar í þessum tveimur húsleitum.
Alls hefur lögreglan lagt hald á um 2000 kannabisplöntur það sem af er þessu ári.
„Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann,“ segir á vef lögreglunnar.