Samtals greindust 1.834 klamydíutilfelli á árinu 2008 og er það svipaður fjöldi og síðastliðin ár. Sýkingin var algengust meðal fólks á aldrinum 15–29 ára og greindist oftar hjá konum en körlum. Alls greindust 26 einstaklingar með lekanda á árinu 2008 samkvæmt jákvæðum ræktunum á sýkladeild Landspítalans. Þar af voru 12 konur og 14 karlar, á aldrinum 19 til 63 ára.
Hlutfallslega flestir greindir á Íslandi
Samkvæmt ársskýrslu European Surveillance of Sexually Transmitted Infections (ESSTI) frá 2008 greindust hlutfallslega flest tilfelli á Íslandi samanborið við aðrar Evrópuþjóðir. Slíkan samanburð þarf reyndar að taka með fyrirvara því að margt annað hefur áhrif á fjölda tilfella en raunverulegt algengi (prevalence) sjúkdómsins í samfélaginu, að því er segir í farsóttarfréttum landlæknisembættisins.
Sýkingin er í mörgum tilfellum einkennalaus og fjöldi sýna sem sendur er í klamydíuleit hefur áhrif á heildarfjölda tilfella sem greinast. Það er líklegt að góðar greiningaraðferðir og fjöldi sýna sem sendur er til rannsóknar fyrir klamydíu skýri að einhverju leyti háar klamydíutölur hérlendis. Slíkt er þekkt í öðrum löndum, en í ársskýrslu ESSTI var greint frá mikilli aukningu tilfella í Svíþjóð árið 2007. Skýring á þeirri aukningu var talin vera aukinn sýnafjöldi og bættar greiningaraðferðir.
Helstu einkenni klamydíusýkingar eru sviði og útferð, en sýkingin er oft án einkenna, einkum hjá konum. Ófrjósemi hjá konum er alvarlegur fylgikvilli sýkingarinnar.
Lekandi var fremur sjaldséður hérlendis áður fyrr, en árið 2005 fór að bera á fjölgun tilfella. Það ár greindust 19 einstaklingar með lekanda, en flest hafa tilfellin orðið 31, árið 2006.