Eignahrap einstaklinga mikið

mbl.is/Ásdís

Um 46.000 Íslendingar töpuðu að meðaltali þremur milljónum króna á falli bankanna þriggja. Þetta kom fram á framboðsfundi Péturs Blöndals alþingsmanns á Háskólatorgi í gær og er byggt á upplýsingum frá verðbréfaskráningu. Sagði Pétur að í þessum hópi væru 11.000 aldraðir. „Þannig að þriðji hver aldraður tapaði að meðaltali þremur milljónum og ég hugsa að það sé ansi dapurt fyrir mann sem kannski er búinn að leggja fyrir í mörg ár.“

Hafa þurfi þó í huga að hluti tapsins sé af þeirri hækkun sem orðið hafi undanfarin ár, en þó vanti líka inn alla lækkun frá áramótum. Önnur fyrirtæki sem lækkað hafi í verði eða eru orðin verðlaus séu þá ekki með í þessu dæmi. „Það væri áhugavert að taka saman hvað eignahrapið væri mikið,“ segir hann og telur ekki ósennilegt 60-70.000 manns hafi tapað fjórum til fimm milljónum króna hver.

„Ég segi að þetta séu fimm áföll sem við lentum í. Fyrst var það eignahrapið, síðan keðjuverkunin af gjaldþrotunum, þá jöklabréfin og svo kröfur erlendu kröfuhafanna og Icesave-málið sem er galli í regluverki Evrópusambandsins.“

Vegna tveggja síðastnefndu málanna vill hann gera friðarsamninga. Það þurfi þó að gæta þess að lesta þjóðina ekki svo mikið að hún brotni undan því, til að mynda hvað álögur á skatta- og velferðarkerfið varðar. „Ég stakk upp á því einhvern tímann að þetta yrði 1% af þjóðarframleiðslu í tíu ár sem er sama upphæð og fer til reksturs Háskólans.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert