Í árslok 2008 voru aðeins 9.265 Íslendingar ekki skráðir í neitt trúfélag. Því hefur gjarnan verið fleygt að þjóðin sé í raun ekki mjög trúuð, en sú staðreynd að rúm 97% Íslendinga tilheyri trúfélagi stangast þvert á við þá fullyrðingu. Sennilega má þó rekja a.m.k. hluta þessa mikla fjölda til þess fyrirkomulags sem hér hefur verið við lýði, að nánast um leið og nýfæddir Íslendingar berja heiminn augum í fyrsta skipti, hafa þeir óafvitandi verið skráðir í trúfélag.
Þetta er gert samhliða skráningu nýs einstaklings í þjóðskrá og segja lögin fyrir um að frá fæðingu skuli barn tilheyra sama skráða trúfélagi og móðir þess. Lögin taka ekki tillit til þess hvort móðirin fer ein með forræðið eða ekki og hefur því faðirinn lítið um málið að segja. Flestar þessara nýskráninga eru í þjóðkirkjuna, sem hefur langflesta meðlimi allra trúfélaga á Íslandi.
Í áliti Ingibjargar Elíasdóttur, lögfræðings Jafnréttisstofu, um málið kemur fram að ekki sé að sjá að neinir hagsmunir felist í því, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag. „Þetta snýst ekki um rétt móðurinnar eða rétt föðurins til að barnið sé skráð með öðru hvoru þeirra í trúfélag,“ segir Ingibjörg. „Hagsmunir barnsins eiga alltaf að vera hafðir að leiðarljósi fram yfir hagsmuni foreldranna, og það er erfitt að sjá að sé hagsmunamál fyrir barnið að vera skráð í eitthvert tiltekið trúfélag við fæðingu.“ Ingibjörg lagði því til að ákvæðið yrði endurskoðað og fellt á brott eða, ef gild rök væru fyrir því að halda fyrirkomulaginu áfram, að þá sé gert grein fyrir þeim rökum í lögunum. Það er ekki gert nú.
Þá má heita að ákveðið ósamræmi felist í því að ákvæðið um sjálfkrafa skráningu í trúfélag gildir ekki í hina áttina. Þ.e.a.s. ef móðir barns skráir sig úr trúfélagi fylgir barnið ekki sjálfkrafa heldur þarf hún þá að úrskrá það sérstaklega. Sama grein laganna boðar að aðeins þeir sem orðnir eru 16 ára að aldri geti tekið ákvörðun um inngöngu í skráð trúfélag eða úrsögn úr trúfélagi. Barn yngra en 16 ára getur þannig ekki skráð sig úr trúfélaginu sem það var skráð í að því forspurðu, nema með samþykki foreldra, beggja ef forræði er sameiginlegt.
Til lengri tíma litið er það óneitanlega hagsmunamál hvers trúfélags að skráðir meðlimir séu sem flestir. Skv. lögum um sóknargjöld fá skráð trúfélög ákveðna hlutdeild í tekjuskatti, 855 kr. á mánuði m.v. árið 2009, til móts við hvern einstakling 16 ára og eldri sem skráður er í söfnuðinn. Fyrst og fremst eiga þó hagsmunir barnsins að ráða för og engin rök eru í lögum fyrir því að sjálfkrafa skráning til trúar sé ákjósanlegt fyrirkomulag.
„Sjálfkrafa skráning í trúfélög hefur verið líkt við skráningu barna í stjórnmálaflokka. Skoðun Siðmenntar er sú að það eigi ekki að vera á valdi foreldra að skrá börn sín í trúarleg eða veraldleg lífsskoðunarfélög. „Þetta er náttúrlega bara hluti af stærra máli,“ segir Bjarni. „Segja má að sá háttur að skrá menn sjálfkrafa í trúfélag standi gegn mannréttindum.
Okkar mat er að það eigi ekki að skrá börn í trúfélög fyrr en þau hafa aldur og vit til því þar með eru þau að gangast undir ákveðnar lífsskoðanir og verða að hafa þroska til að vita hvað þau eru að gera.“