Færri ferðamenn sem eyða meiru

Ferðamenn í Reynisfjöru
Ferðamenn í Reynisfjöru Ragnar Axelsson

Á síðasta ársfjórðungi ársins 2008 fækkaði erlendum ferðamönnum til Íslands miðað við sama ársfjórðung ársins á undan um 1,3%. Hins vegar varði hver erlendur ferðamaður að jafnaði meira en helmingi hærri upphæð í neyslu hér á sama tímabili. Þetta kemur fram í skýrslunni Ferðamannaverslun í kjölfar efnahagssamdráttar.

Neysluútgjöld erlendra ferðamanna á síðasta ársfjórðungi síðasta árs var148,7% meiri en á síðasta ársfjórðungi árið áður samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands.

Erlend greiðslukortanotkun á Íslandi á síðasta ársfjórðungi 2008 jókst um 53% frá 2007.

Flestir erlendra ferðamannamanna sem koma til Íslands eru Norðurlandabúar. Töluverður vöxtur var í verslun Færeyinga og Rússa á svokölluðum tax-free varningi í lok ársins.

Söluverðmæti þess sem útlendingar keyptu hér á síðasta ársfjórðungi 2008 með tax-free skilmálum hjá Iceland Refund var 327% hærra en árið áður og fjöldi sölueyðublaða sem afgreidd voru meira en tvöfölduðust þegar borin eru saman sömu tímabil.

Veltuaukning hjá Global Refund á sama tímabili nam 126% og alls nam aukningin 62,4% milli áranna 2007 og 2008. Mest var keypt af tískufatnaði, útivistarfatnaði, ullarvörum, minjagripum úr og skartgripum með tax-free fyrirkomulagi.

Búist við svipuðum fjölda í ár

Gert er ráð fyrir álíka mörgum erlendum ferðamönnum til Íslands á árinu 2009 og komu til landsins í fyrra.

Ferðum Íslendinga til útlanda fækkaði um 10% árið 2008 miðað við árið áður. Mest munar um fækkun síðustu þrjá mánuði ársins en þá fækkaði brottförum um helming á milli ára. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins 2009 fækkaði ferðum Íslendinga til útlanda um 47% og heimsóknum erlendra ferðamanna um 5,8% miðað við sömu mánuði árið áður.

Greiðslukortanotkun Íslendinga erlendis dróst saman um 39,6% á síðasta ársfjórðungi 2008 miðað við sama tíma 2007.

Samdráttur í ferðaútgjöldum Íslendinga erlendis var 12,3% á síðasta ársfjórðungi 2008 frá árinu áður samkvæmt Seðlabanka Íslands.

Síðustu fjóra mánuði ársins varð að jafnaði samdráttur um 64% í þeim upphæðum sem Íslendingar eyddu í tax-free verslun í Danmörku.

Spáð er að aukin neysla á Íslandi 2009, vegna breytinga á efnahagsástandi og ferðalögum, verði 32 milljarðar kr. Af þeirri upphæð verði 6,4 milljörðum varið til íslenskrar verslunar, samkvæmt skýrslunni.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert