Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í setningarræðu sinni í morgun á landsþingi sambandsins að halda yrði áfram að lækka launakostnað. Formaðurinn er mótfallinn skattahækkunum.
Hann sagði alla starfsmenn sveitarfélaga hafa lent í kaupmáttarrýrnun eins og aðrir launþegar en margir hefðu aukið við þá rýrnun með því að taka á sig beinar launalækkanir. „Við höfum ekki gengið þann veg til enda,“ sagði formaðurinn.
Hann kvaðst telja að varlega þyrfti að fara í skattahækkunum þar sem rauntekjur fólks hefðu minnkað mikið. „Við verðum að grípa til ráðstafana sem örva atvinnulífið og þær ráðstafanir felast ekki í aukinni skattheimtu af hálfu hins opinbera.“