Harður árekstur varð á brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum við þjóðveg 1 um kl. 11 í dag. Að sögn lögreglunnar á Húsavík skullu jeppi og fólksbifreið saman á vesturenda brúarinnar. Betur fór en á horfðist og sluppu allir án alvarlega meiðsla. Bílarnir eru hins vegar sagðir vera ónýtir.
Vegurinn var lokaður í um einn og hálfan tíma vegna árekstursins. Að sögn lögreglu myndaðist nokkur umferðarteppa á meðan fólkinu var komið til aðstoðar. Ekki liggur fyrir hversu margir voru í bílunum tveimur, en lögreglan er enn á vettvangi.
Að sögn lögreglu var mikil ísing og hálka á brúnni.