Verð á hvalkjöti í Japan hefur farið heldur lækkandi í jenum undanfarinn áratug á sama tíma og framboðið hefur heldur aukist. Þetta kemur fram í svari frá utanríkisráðherra við fyrirspurn Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi.
Í svarinu kemur fram að samkvæmt opinberum upplýsingum sé árlegt framboð á hvalkjöti um þessar mundir um 6000 tonn, þar af koma 4000 tonn vegna vísindaveiða og 2000 tonn vegna strandveiða. Framboðið hefur aukist frá 1999 vegna aukinna vísindaveiða Japana.
Þá segir að árleg neysla sé sveiflukennd milli ára. Ómögulegt sé að segja nákvæmlega hversu stór markaðurinn sé í raun þar sem honum sé miðstýrt milli ára. Tekið er hins vegar fram að árið 1987, þegar veiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins tók gildi, var landað 14.500 tonnum af hvalkjöti í Japan.
Í svarinu kemur fram að árið 1999 var meðalverð í jenum 2236 á kíló en þá var framboðið 2140 tonn. Á síðasta ári var meðalverðið 1485 jen, jafnvirði rúmlega 1700 króna á núverandi gengi en framboðið var 4050 tonn. Tekið er fram að verð ráðist einnig af því um hvaða hvalategund sé um að ræða og af hvaða hluta hvalsins kjötið er. Sem dæmi geti verð á verðmætasta kjötinu verið 12.000 jen á kíló og allt niður í 600 jen á kíló fyrir ódýrustu bitana.
Fram kom á Alþingi nýlega, að tæp 82 tonn af langreyðakjöti voru seld til Japans frá Íslandi á síðasta ári og voru gjaldeyristekjurnar 94 milljónir króna. Það gera 1146 krónur á kíló. Um var að ræða kjöt af sjö langreyðum, sem veiddar voru árið 2006. Gert er ráð fyrir að í sumar verði heimilað að veiða allt að 150 langreyðar við Ísland.