Ísland eyðilagði hjónabandið

Albanskur  hælisleitandi sakar íslensk yfirvöld  um að hafa eyðilagt hjónaband sitt og haldið honum frá dætrum sínum. Hann sótti ásamt fjölskyldu sinni um landvistarleyfi hér á landi í júlí 2007 en var synjað. Í framhaldi af því sótti kona hans um skilnað en maðurinn heldur því fram að það hafi verið vegna þess að henni hafi verið lofað landvistarleyfi ef hún skildi við hann.

Petraq er heilsuveill og með gervifót. Hann býr í herbergi sem kaþólska kirkjan útvegar honum en hún lætur auk þess færa honum mat.

Guðmundur Pálsson læknir sem hefur aðstoðað manninn segir að félagsmálayfirvöld hafi rekið málið mjög harkalega. Hann fái hvorki að tala við né hitta dætur sínar. Það sé ekki eðlilegt að meðhöndla manninn eins og sakamann þótt það komi upp skilnaðarmál.

Skilnaðarmáli hjónanna var áður vísað frá dómi þar sem þau eru ekki íslenskir ríkisborgarar, en Héraðsdómur hefur samþykkt að taka málið fyrir aftur þann 20. mars.

Í millitíðinni búa eiginkona hans og dætur í athvarfi Félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ.  Þar fengust þær upplýsingar að yfirvöld hefðu ekki reynt að hindra umgengni.  Að öðru leyti væri beðið niðurstöðu dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka