Lífeyrissjóðir eigi og reki húsnæði

mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Lífeyrissjóðir fá heimild til að eiga og reka íbúðarhúsnæði samkvæmt frumvarpi sem fimm þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram á Alþingi. Flutningsmenn telja að heimildin geti orðið einn þáttur í því að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Helgi Hjörvar en meðflutningsmenn eru Lúðvík Bergvinsson, Mörður Árnason, Ellert B. Schram og Einar Már Sigurðarson.

Flutningsmenn telja að verði frumvarpið að lögum, gæti það orðið einn þáttur þess að koma aftur hreyfingu á fasteignamarkaðinn. Þar að auki gæti fyrirkomulag sem þetta stuðlað að auknum stöðugleika á fasteignamarkaði og skapað grundvöll fyrir öflugri leigumarkaði.

Samkvæmt núgildandi lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er lagt blátt bann við því að lífeyrissjóður fjárfesti í fasteignum nema það sé nauðsynlegt vegna starfsemi sjóðsins. Frumvarpið leggur til undanþágu frá því þegar um íbúðarhúsnæði er að ræða.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að lífeyrissjóðir geti stofnað félag um rekstur húsnæðisins eða gert samning við einkaaðila um hann. Með þessu er lífeyrissjóðum m.a. gert kleift að gera samning við leigumiðlanir um útleigu íbúða eða stofna leigumiðlun og/eða -félag. Um slíka starfsemi gilda þá lög þar um.

Fordæmi eru fyrir heimild af þessu tagi í öðrum löndum, m.a. á Norðurlöndunum og í Þýskalandi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að aukið hlutfall fasteigna í félagslegri eigu sé til þess fallið að stuðla að stöðugleika á fasteignamarkaði. Þar með sé dregið úr þeim neikvæðu áhrifum sem verðsveiflur á fasteignamarkaði hafa á efnahagslífið.

Þá segir að heimild til handa lífeyrissjóðunum að fjárfesta í íbúðarhúsnæði geti verið einn þáttur í því að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn, ásamt því sem heimildin gæti orðið grundvöllur fyrir því að á Íslandi skapist traustur og góður leigumarkaður eins og víða megi sjá í nágrannalöndum okkar.

Í greinargerðinni segir ennfremur að ekki verði séð að íbúðarhúsnæði til handa fólkinu í landinu sé síðri fjárfesting en erlend hlutabréf sem sjóðirnir hafa lögfesta heimild til að fjárfesta í. Fjárfesting í fasteignum sé kannski ekki til þess fallin að skila skammtímahagnaði en er góð langtímafjárfesting og ætti því að samrýmast vel fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna.

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert