Rannsókn hefur verið hætt á málum er varða reikninga frá Hannesi Sigmarssyni, yfirlækni við Heilsugæslu Fjarðabyggðar. Hannes sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að honum hafi verið sagt þetta í morgun og að það sýni að ásakanir á hendur honum hafi ekki verið byggðar á neinum rökum.
Hannes sagði tilfinninguna við þessi málalok mjög góða og að hann muni að sjálfsögðu taka aftur við starfi sínu sem yfirlæknir. Ekki liggi hins vegar fyrir hvenær það verði.
Flaggað er víða á Eskifirði í dag vegna þessa.
Hannes var tímabundið leystur frá starfsskyldum sínum við Heilbrigðisstofnun Austurlands, HSA, um miðjan febrúar vegna rannsóknarinnar.
Hannes er einn fjögurra lækna sem starfað hafa við Heilsugæslu Fjarðabyggðar og hefur starfað þar í hartnær áratug.
Rannsókn málsins snéri að vinnulagi og kostnaði, einkum vegna vinnu utan dagvinnutíma og var það rannsakað af fulltrúa landlæknisembættisins, lögmanni og endurskoðanda.