Flugstoðir hafa sagt upp samstarfssamningi sínum við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um þjónustu við Reykjavíkurflugvöll. Samningurinn er frá árinu 2000 og er uppsagnarfyrirvari 12 mánuðir.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugstoða, segir fyrirtækið hafa sagt upp samningnum en jafnframt óskað eftir viðræðum um gerð nýs og endurskoðaðs samnings. Þá segir hún að forsvarsmenn Flugstoða telji eðlilegt að endurskoða samninginn reglulega, ekki síst í ljósi þess hve mikið aðstæður og forsendur hafi breyst að undanförnu.
„Við erum aðallega að horfa í kostnaðinn," segir hún. „Það er þó alveg á hreinu að það verður ekkert gert sem mun draga úr flugöryggi. Það stendur alls ekki til að veita neinn afslátt af flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli."
Hjördís segir samninga alltaf vera í endurskoðun en að gildandi samningi við slökkviliðið hafi ekki áður verið sagt upp. Ekki er kveðið á um tímatakmörk í þeim samningi.
Þá segir hún að náist ekki nýr samningur við slökkviliðið muni fyrirtækið þjálfa upp fólk til að sinna þeim störfum sem slökkviliðið hafi séð um samkvæmt samningnum.