Þjófnuðum og innbrotum hefur fjölgað verulega frá því seinni hluta árs 2008 og fram í byrjun árs 2009. Í samantekt ríkislögreglustjóra er skoðað tímabilið frá október 2008 fram í mars 2009 með tilliti til fjölda brota, kæra og kærðra í þjófnuðum og innbrotum um allt land og borið saman við tímabilið október 2007 fram í mars 2008.
Þegar litið er til fjölda þjófnaðarbrota sést að þau voru mun fleiri á seinna tímabilinu. Brotin voru 1.091 frá október 2007 til mars 2008 en 2.157 talsins yfir sama tímabil 2008‐2009. Jafngildir það 98% fjölgun. Fleiri einstaklingar eru í hópi grunaðra en athygli vekur að aldurssamsetning og kynjaskipting er svipuð þegar tímabilin eru borin saman, að því er segir á vef lögreglunnar. Um 10% þjófnaðarbrota frá október 2008 til mars 2009 voru á eldsneyti.
Ekki eru öll mál upplýst. Á tímabilinu 2007‐2008 voru 643 kærur á 468 einstaklinga. Hins vegar frá októbermánuði 2008 til marsmánaðar 2009 lágu fyrir upplýsingar um gerendur í 1.059 brotum, en um var að ræða 773 einstaklinga.
Þegar litið er til hve stórt hlutfall kærðra var undir 18 ára aldri annars
vegar 2007‐2008 og hins vegar 2008‐2009 má sjá að hlutfallið er 24% yfir fyrra tímabilið en 22% yfir það seinna. Ungmennin voru 108 á fyrra tímabilinu en 168 á því seinna. Meira en þriðjungur kvenna sem grunaðar voru um þjófnað eru undir 18 ára aldri, en um 17% karla.
„Í 76% kærðra fyrir þjófnað yfir fyrra tímabilið voru með íslenskt ríkisfang en 72% kærðra frá október 2008 til mars 2009. Þá voru 82% kærðra fyrir innbrot á fyrra tímabilinu með íslenskt ríkisfang en 86% kærðra frá október 2008 til mars 2009. Hafa ber í huga að ekki er vitað hvort kærðir með erlent ríkisfang hafi aðsetur hér á landi," að því er segir í samantektinni.