Vilja stöðva auglýsingar Símans

mbl.is/Kristinn

Neytendastofa mælist til þess við Símann að fyrirtækið stöðvi birtingar á auglýsingum sínum sem nú eru í gangi. Vodafone og Nova hafa kært birtingu auglýsinganna og telja að birting þeirra brjóti gegn fjölmörgum ákvæðum laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Síminn hefur að undanförnu birt auglýsingar með yfirskriftinni „Aðgerðaáætlun Símans fyrir fólkið og fyrirtækin.“ Í auglýsingunum má sjá marga gamalreynda fyrrverandi fréttamenn á ímynduðum blaðamannafundi þar sem m m.a. er borið saman verð Símans og annarra fjarskiptafyrirtækja.

Í kvörtunum fjarskiptafyrirtækjanna til Neytendastofu segir að þau telji að auglýsingarnar brjóti gegn ákvæðum 5., 6., 8., 9., 10., 14. og 15. greina laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Greinarnar fjalla um bann við óréttmætum viðskiptaháttum, vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda og háttsemi milli fyrirtækja.

Athugasemdirnar beinast m.a. að fullyrðingum um að Síminn bjóði lægsta mínútuverðið en kærendur telja þær villandi. Sama á við um fullyrðinguna „0 krónur í heimasíma.“ Almennur skilningur viðskiptavinarins hljóti að mati kærenda að vera sá að það kosti ekkert að hringja í heimasímann, sem sé alrangt.

Neytendastofa ákvað vegna tengsla kvörtunarefna fjarskiptafyrirtækjanna gegn Símanum að sameina meðferð málanna, bæði til hagræðis fyrir málsaðila og Neytendastofu.

Í bréfi sem Neytendastofa sendi Símanum í vikunni er óskað skýringa eða athugasemda Símans við erindin. Gefinn er tíu daga frestur til svara. Þá beinir Neytendastofa þeim tilmælum til Símans að stöðva birtingu auglýsinganna á meðan meðferð málsins stendur.

Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans sagði í samtali við mbl.is að um tilmæli frá Neytendastofu væri að ræða. Hingað til hefðu fjarskiptafyrirtækin ekki stöðvað birtingar auglýsinga þó athugasemdir bærust. Margrét sagði að Síminn væri að undirbúa rökstuðning sem yrði sendur Neytendastofu sem síðan tæki sína ákvörðun í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert