Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari hefur falið lögreglu að rannsaka einstaka þætti í sviplegu láti tveggja ungra manna á athafnasvæði við Daníelsslippp fyrir 24 árum. Í samtali við Morgunblaðið bendir Valtýr á að nýlega hafi komið fram ný gögn í málinu, en það eru ljósmyndir af vettvangi og mönnunum, teknar af rannsóknarlögreglumanni, sem ekki fóru inn í málið á sínum tíma.
„Málið var rannsakað og afgreitt sem sjálfsvíg. Þannig var skilið við málið. Þannig að myndirnar fóru aldrei inn í málið sjálft,“ segir Valtýr. Tekur hann fram að auk þess sem einstaka þættir verði skoðaðir eigi að fá réttarmeinafræðing til að skoða krufningarskýrslur mannanna á ný.
„Ríkissaksóknari mun að því fengnu ákveða framhaldið,“ segir Valtýr og vísar þar til þess hvort málið verði í heild sinni tekið upp að nýju.
Á síðasta ári fjallaði fréttaskýringaþátturinn Kompás um baráttu ættingja mannanna tveggja við að fá aðgang að rannsóknargögnum málsins, m.a. krufningar- og lögregluskýrslum. Í framhaldi af umfjöllum Kompáss fann fyrrum rannsóknarlögreglumaður myndir þær sem hann tók af vettvangi á sínum tíma, en það eru þessar myndir sem ríkissaksóknari vísar til sem nýrra gagna í málinu.