Stjórn Gildis lífeyrissjóðs hyggst leggja til á ársfundi sjóðsins, sem fer fram 21. apríl nk., að réttindi sjóðfélaga, verði lækkuð um 10%. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, segir að þetta sé gert vegna núverandi stöðu í efnahagsmálum.
Árni segir, að staða sjóðsins hafi versnað og sé komin út fyrir þau mörk sem samþykktir sjóðsins segi til um. Taka verði á vandanum og því hafi verið ákveðið að grípa til þessarar ráðstöfunar, að höfðu samráði við tryggingafræðing sjóðsins.
Árni bendir á að réttindi sjóðfélaga hafi verið hækkuð um 17,7% frá stofnun Gildis árið 2005. Það sé til viðbótar vísitöluhækkunum.