Fréttaskýring: Tekjur af Danice skila sér ekki strax

Vegna seinkunar á uppbyggingu gagnavera hér á landi fær Farice ekki mikilvægar tekjur af nýja sæstrengnum (Danice) sem verið er að leggja til Danmerkur fyrr en á næsta ári. Vegna óska fyrirtækja sem áforma byggingu gagnavera hér á landi, ekki síst Verne Holdings, var lagt í dýrari tengingu en áður var áformað. Ríkið mun ábyrgjast lánin.

Ríkisstjórnin beitti sér fyrir því á seinni hluta ársins 2007 að ákveðið var að leggja nýjan sæstreng til Evrópu. Átti strengurinn að vera tilbúinn í lok síðasta árs og komast í notkun nú í ársbyrjun. Þegar málið var lagt fyrir ríkisstjórn var áætlað að sæstrengur til Danmerkur yrði hálfum öðrum milljarði dýrari en strengur til Írlands sem áður hafði verið til skoðunar.

Með því að fara til Danmerkur var verið að búa í haginn fyrir ný viðskiptatækifæri. Á bak við það voru eindregnar óskir fjárfesta sem höfðu í hyggju að byggja upp netþjónabú hér á landi, sérstaklega Verne Holdings, sem hefur tryggt sér aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Töldu forsvarsmenn fyrirtækisins seljanlegra að fara beint til meginlands Evrópu, vegna áreiðanleika, flutningshraða og greiðari aðgangs að mörkuðum.

Borga aukakostnaðinn

Verne Holdings er í eigu Novators ehf. (Björgólfs Thors Björgólfssonar), og bandaríska fjárfestingarsjóðsins General Catalyst Partners LLC. Fyrirtækið og væntanlegir viðskiptavinir þess gerðu samninga við Farice um að standa undir þeim aukakostnaði sem fylgir því að fara þessa leið.

Orkufyrirtækin sáu sér hag í því að fá þessa starfsemi til landsins og lögðu fram tæplega 1,5 milljarða kr. í hlutafé í Farice og ríkið lagði fram tæpar 400 milljónir kr. Í fjárlögum þessa árs er síðan heimild fyrir ríkið að ábyrgjast 5 milljarða króna lán vegna sæstrengsins og hefur það auðveldað fjármögnun.

Nú liggur fyrir að það frestast að gagnaverin taki til starfa. Þannig kom fram fyrir skömmu að gagnaver Verne Holdings verður seinna á ferðinni en áformað var en talsmaður fyrirtækisins sagði þá jafnframt að það myndi hefja starfsemi í samræmi við samninga við viðskiptavini sem unnið væri að. Fyrirtækin Greenstone og Titan Global hafa einnig verið að skoða uppbyggingu gagnavera.

Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Farice, segir að þótt fleiri fyrirtæki hafi óskað eftir viðskiptum hafi Verne Holdings eitt gert bindandi samning. Samið hefur verið um frestun og skila greiðslurnar sér ekki strax. „Upphafleg áform voru um að þeir yrðu komnir í gang á miðju þessi ári. Ljóst er að það verður ekki fyrr en upp úr áramótum, jafnvel síðar. Við verðum einfaldlega að þreyja þann þorra,“ segir Guðmundur og segist sannfærður um að aðeins sé um seinkun að ræða því unnið sé af fullum krafti að undirbúningi.

Hann tekur það fram að þótt netþjónabúin séu hluti af áætluninni hafi jafnframt verið þörf á nýjum streng til landsins. Nauðsynlegt sé að hafa aðra leið út úr landinu þegar bilanir verði í Farice-1.

Guðmundur segir aðspurður að gagnaversfyrirtækin geri kröfur um öryggi og áreiðanleika. Mikilvægasta málið í því sé að hafa tvo aðskilda strengi og það sé forsenda þess að verið sé að undirbúa netþjónabú hér. Annað sé ekki mikið umfram almennar kröfur.

500 km eru eftir

Búið var að leggja sæstreng tæplega 80% af leiðinni til Danmerkur í vetur þegar ákveðið var að gera hlé. Frestunin var gerð vegna frátafa sem urðu í slæmum vetrarveðrum, að sögn Guðmundar Gunnarssonar framkvæmdastjóra Farice, en slíkar tafir eru dýrar að hans sögn.

Danice sæstrengurinn verður 2300 km langur. Tvö skip lögðu strenginn frá því í ágúst og september og voru búin að leggja 1800 kílómetra í byrjun desember þegar ákveðið var að gera hlé á verkinu. Eru því 500 kílómetrar eftir. Annað skipið kemur til baka seinnihluta næsta mánaðar og lýkur við lagningu strengsins þannig að hægt verður að taka hann í notkun í júní, að sögn Guðmundar.

Búið er að setja allan búnað upp í báðum löndum til að tengja strenginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert