Þjónkun IMF við stjórnvöld

mbl.is/Kristinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, heldur því fram að afstaða fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, IMF, til niðurfærsluleiðar sem framsókn hefur kynnt, sé þjónkun í garð ríkisstjórnar Samfylkingar og VG. Sigmundur Davíð segir að fulltrúar IMF hafi fyrir skömmu lýst sig samþykka flatri 20% lánaafskrift einstaklinga en í gær hafi Mark Flanagan, starfsmaður IMF slegið allar slíkar hugmyndir af borðinu.

Sigmundur Davíð skrifar um fund sem hann átti fyrir skömmu, ásamt þremur ráðgjöfum, með fulltrúum IMF. Þar voru kynntar tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram í efnahagsmálum, einkum tillögu um flata 20% lánaafskrift. Sigmundur Davíð segir að á fundinum hafi fulltrúi IMF upplýst að hann væri sammála framsókn um allar forsendur sem og nauðsyn þess að fara í flatar, kerfisbundnar lánaafskriftir.

„Við ræddum það jafnframt að skoða bæri hvort finna mætti formúlu sem skilaði hagkvæmari dreifingu en flöt 20% enda lá fyrir vilji til að bæta tillöguna ef finna mætti enn hagkvæmari leiðir. Auk þess vorum við sammála um að ef mjög stór hluti þjóðarinnar teldist uppfylla skilyrði fyrir flatri skuldaniðurfellingu mundi vart borga sig að ætla að skilja hluta skuldara útundan,“ segir Sigmundur Davíð.
 
Hann segir að eftir yfirferð um málið hafi áhyggjur fulltrúa IMF einkum snúið að því að ef tillögurnar næðu fram að ganga kynnu kröfuhafar að gera sér von um töluvert meiri heimtur af lánum til íslenskra banka en ella. Það væri því æskilegt að semja við kröfuhafa áður en niðurfellingin ætti sér stað.
 
Þá segir Sigmundur Davíð að fulltrúi IMF hafi slegið út af borðinu tillögur á borð við þær sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir. Þ.e. sértækar aðgerðir þar sem hvert tilfelli fyrir sig yrði metið og aðstoð svo úthlutað. Fullyrt var að slíkar leiðir væru ófærar.

Í gær hafnaði svo Mark Flanagan starfsmaður IMF, hugmyndum Framsóknarflokksins um kerfisbundna 20% niðurfellingu skulda. Sigmundur Davíð segir þessa afstöðu mjög í andstöðu við það sem fram fór á fundinum. sem áður er minnst á.

„Flanagan gerði mér þó grein fyrir því að hlutverk hans væri fyrst og fremst að bakka upp þau stjórnvöld sem ríktu hverju sinni,“ segir Sigmundur Davíð og beinir spjótum sínum einnig að Samfylkingunni.

„Forsætisráðuneytinu og þingmönnum Samfylkingarinnar hefur einhverra hluta vegna verið mikið í mun að kveða í kútinn tillöguna um að afskriftir af skuldum Íslendinga verði látnar ganga áfram til skuldaranna. Í þetta hefur verið eytt óvenju miklu púðri, eins og sést best á því að enn er vakið máls á hugmyndinni, sem var aðeins ein af 18 samhangandi aðgerðum í tillögunum, í því augnamiði að gera lítið úr henni. Í því skyni var m.a. sett færsla inná heimasíðu forsætisráðuneytisins. Færslan var svo fjarlægð af vefsíðunni skömmu síðar, væntanlega eftir að menn þar á bæ gerðu sér grein fyrir að athugasemdirnar hefðu verið vanhugsaðar.  
Nú hefur hins vegar verið gengið skrefinu lengra og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins blandað í málið í von um að tryggja mætti endalok hugmynda um jafnræði skuldara,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Skrif Sigmundar Davíðs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert