Digur sjóður safnast upp

Tæplega 65 milljónir króna eru til í sjóði nefndar sem á að hafa eftirlit með starfsemi fasteignasala eftir því sem fram kemur í svari nefndarinnar við fyrirspurn mbl.is.

Sérhver fasteignasali greiðir árlega 100 þúsund krónur í eftirlitsgjald og er því ætlað að standa straum af eftirlitinu. Tæplega 90 milljónir hafa verið innheimtar af fasteignasölum í eftirlitsgjald frá árinu 2005 en kostnaður við nefndina nemur hins vegar rúmum 35 milljónum. Digrir sjóðir hafa því safnast upp og hefur viðskiptanefnd Alþingis lagt fram frumvarp sem kveður á um tímabundið afnám eftirlitsgjaldsins.

Samkvæmt lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem samþykkt voru á Alþingi árið 2004 var sett á fót sérstök eftirlitsnefnd með starfsemi fasteignasala. Í henni eiga sæti þrír menn og jafnmargir til vara.

Nefndinni er ætlað að hafa eftirlit með því að eignarhald á fasteignasölum sé samkvæmt lögum, að tryggingar séu í lagi, skjalafrágangur sé eins og lög kveða á um og að meðferð fjármuna í eigu viðskiptamanna sé í hvívetna í samræmi við gildandi lög.

Þá fylgist eftirlitsnefndin með því að fasteignasalar skili árlega yfirlýsingu löggilts endurskoðanda um að meðferð á fjármunum viðskiptamanna sé í samræmi við lög og reglur. Skili fasteignasali ekki þessari yfirlýsingu fyrir 1. október ár hvert, er hann sviptur löggildingu tímabundið.

Eftirlit þriðja hvert ár

Þá hefur eftirlitsnefndin heimild, hvenær sem er og án fyrirvara að skoða öll skjöl fasteignasala, sem tengjast rekstri hans eða einstökum málum sem hann hefur með höndum. Þá er nefndinni skylt að framkvæma skoðun á starfsstöð fasteignasala eigi sjaldnar en þriðja hvert ár hjá hverjum fasteignasala.

Samkvæmt því þarf nefndin að heimsækja u.þ.b. tvo fasteignasala í viku. Í svari nefndarinnar kemur fram að reglulegar skoðanir hafi verið framkvæmdar með þeim hætti að farið hefur verið sérstaklega yfir eignarhald, tryggingar og skjalafrágang m.a. með því að fá afrit af gögnum vegna eigna sem hafa verið seldar og vegna eigna sem eru á söluskrá. Skýrsla hefur verið send fasteignasala í lok skoðunar og eru þá settar fram athugasemdir ef einhverjar eru eða fasteignasali áminntur, eins og dæmi eru um.

Ekki kærunefnd

Eftirlitsnefnd Félags fasteignasala er ekki kærunefnd en ef nefndinni berast trúverðugar ábendingar um misfellur í starfi fasteignasala, ber henni að rannsaka málið sem fyrst, m.a. með skoðun á starfsstöð fasteignasalans sem á í hlut. Slík rannsókn getur leitt til áminningar eða tímabundinnar sviptingar löggildingar, ef brot eru alvarleg eða ítrekuð. Þá getur eftirlitsnefndin óskað þess við sýslumanninn í Hafnarfirði, sem annast útgáfu leyfi til fasteignasala, að starfsstöð fasteignasala án löggildingar verði  lokað.

Digrir sjóðir safnast upp

Í svari Eftirlitsnefndar Félags fasteignasala við fyrirspurn mbl.is kemur fram að frá því innheimta eftirlitsgjaldsins hófst, árið 2005, hafa verið innheimtar tæplega 90 milljónir króna.

Rekstrargjöld námu á sama tímabili rúmlega 35,5 milljónum en í þeim felst þóknun nefndarmanna, kostnaður vegna starfsmanns og skrifstofukostnaður. Þóknun nefndarmanna nemur að jafnaði 5,5 milljónum á ári eða samtals rúmlega 22 milljónum króna síðustu 4 ár.

Hagnaður af rekstri nefndarinnar síðustu fjögur rekstrarár nemur samtals rúmum 65 milljónum króna og eigið fé nefndarinnar var þann 13. mars sl. tæpar 65 milljónir króna sem varðveittar eru á bankareikningi, eftir því sem segir í svari nefndarinnar.

Eftirlitsgjaldið burt 

Fasteignasalar hafa gagnrýnt innheimtuna og sagt hana ríflega. Rekstrareikningar staðfesta að vel hefur verið innheimt umfram þann kostnað sem af eftirlitinu hlýst. Viðskiptanefnd Alþingis hefur tekið undir þessar röksemdir og lagði á dögunum fram frumvarp um tímabundið afnám gjaldsins. Í greinargerð með frumvarpinu segir að frá því að innheimta eftirlitsgjaldsins hófst, hafi safnast digur sjóður.

Í frumvarpi til nýrra heildarlaga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem lagt var fram í apríl 2008 var gert ráð fyrir að gjaldið yrði lækkað í 80 þúsund krónur en gjaldið yrði þó ekki innheimt fyrr en 1. júlí 2010. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu.
Viðskiptanefnd telur, með hliðsjón af því ástandi sem nú ríkir, þar sem sala fasteigna hefur m.a. stórlega minnkað, að ekki eigi að innheimta eftirlitsgjaldið á árinu 2009.

Viðskiptaráðuneytið vinnur nú að heildarendurskoðun laga um fasteignasala en ljóst þykir að það frumvarp kemur ekki til kasta Alþingis á næstunni. Í frumvarpsdrögum sem fyrir liggja eru ákvæði um breytta innheimtu eftirlitsgjaldsins og er því litið á tímabundið afnám sem millileik þar til heildarendurskoðun laganna hefur farið fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert