Fékk það ekki óþvegið í andlitið

Ísland hefur ekki í annan tíma fengið eins mikla athygli í erlendum fjölmiðlum og umliðna mánuði. Öll vitum við að það kemur ekki til af góðu. Það er ekki á hverjum degi sem bankakerfi heillar þjóðar hrynur eins og spilaborg. Fyrst eftir hrunið bárust fréttir hingað heim af hremmingum landa okkar erlendis og jafnvel óþægilegu viðmóti fólks í þeirra garð. Það þarf heldur ekki að tala lengi við Íslendinga til að komast að því að sumir eru smeykir um að við höfum brennt allar brýr að baki okkur meðal erlendra þjóða. Æran sé fokin út í veður og vind. Í stað þess að pakka sandölum og ermalausum bolum fyrir ferðina til útlanda fer gamla góða lambhúshettan nú fyrst niður í skjóðuna.

En skyldi það vera óþarfi? Þetta er alltént ekki upplifun Halldórs G. Eyjólfssonar, forstjóra 66°Norður, sem er nýkominn heim frá útlöndum úr mikilli sýningaferð. 66°Norður tók þátt í útivistarsýningum á Norðurlöndunum og stærstu sýningunni af þessu tagi í Evrópu, ISPO sem fram fer í München í Þýskalandi og OR, stærstu útivistarsýningunni í Bandaríkjunum sem haldin er í Salt Lake City.

Sýndu okkur mikinn skilning

„Þið voruð fyrstir til að fara á hliðina,“ segir hann Bandaríkjamennina hafa fullyrt við sig. „Það vildu þeir setja í samhengi við skuldabréfavafningana í Bandaríkjunum og í raun hafði enginn orð á því að við Íslendingar hefðum einhverja sérstöðu í þessum efnum. Ástandið er mjög slæmt í Bandaríkjunum og greinilegt að menn líta á þetta sem heimskreppu. Og við Íslendingar erum í þeirra huga bara fyrsta fórnarlamb hennar,“ segir Halldór.

Halldór segir íslenska fjölmiðla hafa gert sér mat úr neikvæðri umræðu um Ísland á alþjóðavettvangi og fyrir vikið hafi hann verið við öllu búinn þegar hann lét úr vör. „Þetta viðmót kom mér þægilega á óvart enda voru menn búnir að vara mig við því að ég ætti örugglega eftir að fá það óþvegið í andlitið. Allir litu á Íslendinga sem ótínda glæpamenn og enginn vildi eiga viðskipti við okkur. Það var öðru nær, ég fann ekki fyrir neinum neikvæðum straumum. Hvorki í Bandaríkjunum né Evrópu. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að íslenska bankakerfið hafi hrunið eingöngu vegna óeðlilegrar stærðar þess. Það verður að laga þennan tón í umræðunni hérna heima. Hann gefur ekki rétta mynd af stöðunni. Það finnur maður fljótt þegar maður talar við fólk úti í heimi.“

Allir vita hvar Ísland er 

Enda þótt umfjöllun heimspressunnar um landið bláa komi ekki til af góðu segir Halldór um að gera fyrir Íslendinga að færa sér hana í nyt. „Þegar ég var í Salt Lake City í fyrra vissi varla nokkur maður hvar Ísland væri. Það er gömul saga og ný að Bandaríkjamenn haldi að það sé eitt af ríkjunum þar vestra, jafnvel þorp á austurströndinni. Nú vissu allir hvar Ísland er. Leigubílstjórar, fólk á veitingastöðum, á sýningunum, allir. Ísland hefur fengið mjög mikla umfjöllun og það eiga íslensk stjórnvöld að nýta sér með því að kynna landið og fá þannig fram margfeldisáhrif. Með þessu væri vafalaust hægt að auka ferðamannastrauminn til landsins og skapa fjölda starfa. Þetta er ekki bara bundið við Bandaríkin, ég hitti t.d. margt fólk frá Asíu á þessum sýningum og það er mjög forvitið líka. Núna er tækifærið!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert