Afhenda Bretum formleg mótmæli

Hópurinn hefur m.a. birt myndir af Íslendingum sem mótmæla beitingu …
Hópurinn hefur m.a. birt myndir af Íslendingum sem mótmæla beitingu hryðjuverkalaganna og safnað undirskriftum á vefnum indefence.is. mbl.is

Um tuttugu manna hópur á vegum samtakanna Indefence er nú á leið til Bretlands þar sem hann mun afhenda breskri þingnefnd formleg mótmæli gegn beitingu Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslendingum.

„Það sem við viljum gera er að koma formlega á framfæri mótmælum gegn beitingu hryðjuverkalaganna,” sagði Ólafur Elíasson, einn af meðlimum hópsins, er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag.

„Það hefur að mínu viti ekki verið gert, a.m.k. ekki formlega af hálfu íslenskra stjórnvalda sem er alveg lygilegt. Þá ætlum við að nota tækifærið og koma því á framfæri af festu en kurteisi að það sé ekkert sem réttlæti framkomu Breta í þessu máli.  Að það séu ekki uppi neinar þær kringumstæður sem réttlæti það að Bretar beiti slíkum meðölum gegn vinveittri smáþjóð."

Ólafur segir hópinn einnig ætla að krefjast svara við því hvers vegna hryðjuverkalögunum hafi verið beitt og hvers vegna þeim hafi ekki enn verið aflétt. Hann telji löngu tímabært að krefja Breta svara við því, ólíkt fyrrum forsætisráðherra sem hafi lýst því yfir að hann hafi aldrei gert það.

Hópurinn hefur safnað undirskriftum gegn beitingu hryðjuverkalaganna frá því síðastliðið haust og hafa rúmlega 83.000 manns skrifað undir.

Mótmælin og útprentaður undirskriftarlisti verða afhent þingnefnd undir forystu Austin Mitchell, þingmanns breska Verkamannaflokksins frá Grimsby, í breska þinghúsinu klukkan hálf þrjú á morgun. Að afhendingunni lokinni mun hópurinn funda með þingmönnum auk þess sem fulltrúar hans eiga bókaða fundi með tveimur breskum ráðherrum.

Auk þess sem hópurinn hefur safnað undirskriftum hefur hann m.a. birt myndir af Íslendingum sem mótmæla beitingu hryðjuverkalaganna. Þá hafa meðlimir  hans unnið að því að vekja athygli á framkomu Breta í málinu á erlendum vettvangi, með fundum og viðtölum.

Aðgerðum Breta var formlega mótmælt

Urður Gunnarsdóttir, talsmaður utanríkisráðuneytisins, segir það ekki rétt að íslensk stjórnvöld hafi ekki mótmælt hryðjuverkalögunum og öðrum aðgerðum Breta gegn íslensku bönkunum með formlegum hætti. Þannig hafi Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, kallað sendiherra Bretlands á sinn fund 9. október á síðasta ári. 

Þá hefði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, tekið málið upp með formlegum hætti á fundi sem hún átti með David Miliband, utanríkisráðherra Bretlands, í byrjun desember. 

Að auki hefðu íslenskir embættismenn tekið málið upp við öll þau tækifæri, sem gefist hefðu á undanförnum mánuðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert