Bankarnir þurfa minna fé

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Ríkisbankarnir þrír munu þurfa minna fé frá ríkinu til að reisa við eiginfjárstöðu sína en upphaflega var talið, að því er fram kom í máli Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra í þingræðum um stöðu efnahagsmála í dag.

Hann kveðst aðspurður ekki hafa nákvæmar tölur um hversu miklu muni muna í þessu samhengi.

„Það er að koma í ljós að áætlanir sem að gerðar voru í miklu flýti síðastlitið haust um það hversu stór efnahagsreikningur bankanna yrði virðast ekki hafa gengið eftir,“ sagði Gylfi.

„Bankarnir verða við stofnun talsvert minni heldur en þá reiknað var með. Það þýðir að þeir þurfa þeim mun minna eigiðfé. Það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvað það verður en það munar einhverju talsverður á því sem gert var ráð fyrir og það sem stefnir í.“ 

- Upphaflega var rætt um 385 milljarða króna í þessu samhengi. Sérðu jafnvel fyrir þér að þetta verði jafnvel tugum prósenta lægri upphæð?

„Ég vil ekki nefna neina tölu en hún verður umtalsvert lægri.“

Fengu fyrirgreiðslu út á vilyrðið

Gylfi sagði jafnframt að bankarnir hefðu fengið fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum út á vilyrði stjórnarinnar um áðurnefnd framlag.

Hans skilningur væri að Seðlabankinn hefði veitt bönkunum fyrirgreiðslu, það er að segja fé, út á hlutafjárloforð. Því skipti það ekki höfuðmáli fyrir lausafjárstöðu bankanna að fá áðurnefnt fé greitt frá stjórnvöldum.

„Ég veit hins vegar ekki nákvæmlega hversu mikið þeir hafa fengið út úr Seðlabankanum út á þetta loforð,“ sagði Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert