Eftirlitsgjald með fasteignasölum fellt niður

Alþingi samþykkti síðdegis frumvarp um tímabundna niðurfellingu eftirlitsgjalds sem fasteignasalar hafa greitt. Viðskiptanefnd þingsins flutti frumvarpið í ljósi þess ástands sem ríkir á fasteignamarkaði og þess að tæplega 65 milljónir króna hafa safnast upp vegna innheimtu gjaldsins.

Samkvæmt ákvæðum laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa skulu fasteignasalar greiða árlegt eftirlitsgjald fyrir 1. júlí ár hvert. Fjárhæð gjaldsins er 100 þúsund krónur og á að standa straum af kostnaði við störf eftirlitsnefndar Félags fasteignasala.

Frá því að innheimta eftirlitsgjaldsins hófst árið 2005 hefur safnast digur sjóður. mbl.is greindi frá því um helgina að tæpar 90 milljónir króna hafa verið innheimtar af fasteignasölum vegna eftirlitsins. Rekstrargjöld námu á sama tímabili rúmlega 35,5 milljónum en í þeim felst þóknun nefndarmanna, kostnaður vegna starfsmanns og skrifstofukostnaður.

Hagnaður af rekstri Eftirlitsnefndar Félags fasteignasala síðustu fjögur rekstrarár nemur samtals rúmum 65 milljónum króna og eigið fé nefndarinnar var þann 13. mars sl. tæpar 65 milljónir króna sem varðveittar eru á bankareikningi, eftir því sem segir í svari formanns nefndarinnar til mbl.is

Samkvæmt samþykkt Alþingis í dag verður eftirlitsgjaldið ekki innheimt árið 2009. Óvíst er með framhaldið en innheimta eftirlitsgjalds og framkvæmd eftirlits með fasteignasölum er meðal þess sem mun taka breytingum í þeirri endurskoðun sem unnið er að á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert