Eiginkonurnar settar út á götu

Stefán Scheving Thorsteinsson sem dvelur á  hjúkrunarheimilinu Sóltúni á að greiða tæplega 240 þúsund fyrir dvöl sína á mánuði samkvæmt nýjum reglum. Dvalargjaldið er tekjutengt að fullu en ekki er tekið tilllit til hvort viðkomandi á maka sem býr í heimahúsi og treystir á tekjurnar sér til framfærslu.

Stefán hefur 356 þúsund í lífeyristekjur og eitthundrað þúsund í fjármagnstekjur..

Erna Tryggvadóttir eiginkona hans er ósátt við að hann þurfi að greiða 240 þúsund fyrir hjúkrun þar sem hún segist treysta á tekjur hans til framfærslu heimilisins en sjálf hefur hún einungis 130 þúsund í lífeyristekjur. Hjónin hafa búið í einbýlishúsi í Mosfellsdal frá árinu 1975. Stefán kemur heim á sunnudögum og elsti sonur hjónanna sem er fatlaður og býr á sambýli í grenndinni kemur líka heim um helgar. Nú er útlit fyrir að Erna þurfi að selja húsið því það kostar sitt að halda því við .

Eftir að farið var að vinna í málinu fékkst það leiðrétt um stundarsakir. Tryggingastofnun lækkaði gjaldið tímabundið en hækkunin kemur að fullu til framkvæmda um áramót. Sigurður Einarsson framkvæmdastjóri Félags eldri borgara segir að fjöldi fólks sé í sömu sporum, aðallega konur sem hafi verið heimavinnandi stóran hluta ævinnar og eigi því ekki mikinn lífeyrissparnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka