Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ lýsi furðu sinni á ákvörðun HB-Granda að greiða út arð við þessar erfiðu aðstæður í atvinnulífinu.
Ákvörðun stjórnar HB Granda um að leggja til við aðalfund að greiddur verði 8% arður vegna góðrar afkomu árið 2008, hefur vakið um mjög hörð viðbrögð. Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir það móðgun við fiskvinnslufólk HB Granda ef greiddur verður út arður til hluthafa á sama tíma og ekki var staðið við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl.
Nú hefur Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ tekið undir gagnrýni formanns Verkalýðsfélags Akraness. Gylfi segir að annað hvort séu eigendur HB-Granda að taka fjármuni út úr fyrirtækinu til að mæta eigin greiðsluvanda og setja atvinnuöryggi starfsmanna í verulega hættu eða afkoma HB-Granda sé allt önnur og betri en almennt þekkist í sjávarútvegi vegna loðnubrests, birgðasöfnunar og lækkandi verð á erlendum mörkuðum.
„Sé hið fyrra tilfellið skorar forseti ASÍ á stjórn fyrirtækisins að draga þessa tillögu til baka. Sé hið síðara tilfellið er það auðvitað fagnaðarefni, en að sama skapi ætlumst við til þess að stjórn fyrirtækisins láti starfsmenn einnig njóta þessarar góðu afkomu með því að standa við umsamdar launahækkanir,“ segir í tilkynningu Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.