Góð aðsókn í skíðasvæðin í vetur

Góð aðsókn hefur verið á skíðasvæðin í vetur.
Góð aðsókn hefur verið á skíðasvæðin í vetur. Árni Sæberg

Aðsókn að skíðasvæðum landsins hefur verið mun meiri í vetur en á sama tíma í fyrra. Dæmi erum um allt að 120% aukningu frá því í fyrra. Þakka má þetta ágætu skíðafæri og góðu veðri, en flest skíðasvæði hafi verið opin í fleiri daga en í fyrra.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls á Akureyri, segist telja að aðsókn sé um 120% meiri en í fyrra. Þá aukningu má bæði sjá í helgarmiðum sem og vetrarkortum. Að hluta til má skýra aukna aðsókn í fjallið vegna betra og jafnara veðurs, en var í fyrra en það sem af er vetrar hafa opnunardagar verið 10-15% fleiri en í fyrra.

Í Bláfjöllum hafa selst um 2500 vetrarkort sem er meira en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Þar er, líkt og annars staðar á landinu, hægt að rekja ástæðuna til fleiri opnunardaga þar sem veður er búið að vera gott í vetur. Það átti þó ekki við um síðustu helgi því að lokað var alla helgina í Bláfjöllum vegna veðurs.

Í Oddskarði á Austurlandi hefur sömuleiðis verið mjög góð aðsókn, en að mati Dagfinns Ómarssonar, forstöðumanns skíðamiðstöðvar Austurlands, er aukningin að öllum líkindum í kringum 20% í samanburði við síðasta ár. Þar hefur einnig verið opið fleiri daga en í fyrra. Í janúar og febrúar þessa árs var opið í 43 daga samanborið við 37 daga í fyrra. Betri aðsókn má að nokkru leyti rekja til þess að allir nemendur í 2. bekk í Fjarðarbyggð fengu afhentar vetrarpassa frá skíðasvæðinu. Það skilaði sér síðan í því að foreldrar fylgdu börnum sínum í fjallið.

Á Ísafirði er sömu sögu að segja, aðsókn hefur verið mjög góð í vetur, bæði frá heimamönnum og ekki síður aðkomufólki. Fjallið hefur þó verið minna opið en í fyrra.

Færri fara í skíðaferðir

En betra skíðaveður og fleiri opnunardaga skíðasvæða eru ekki eina ástæðan fyrir góðri aðsókn að skíðasvæðunum. Sú skýring sem stjórnendur skíðasvæðisins í Bláfjöllum fannst ekki síður líkleg er að færri fari erlendis í skíðaferðir og sæki því meira í skíðasvæðin innanlands en áður. Hjá skíðasvæði Dalvíkur fékkst sú skýring að jafnan er jákvæð fylgni á milli þess að mikill snjór sé á höfuðborgarsvæðinu og fleiri sæki í skíðasvæði landsins. Þá er einnig vert að minnast á að páskarnir eru enn eftir og jafnan fylgja þeim gríðarlegur straumur skíðafólks í flest skíðasvæði landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert