Starfsmanni sem sló tæplega fimm ára barn utan undir að minnsta kosti þrisvar sinnum á einum af leikskólum Reykjavíkurborgar hefur verið sagt upp störfum. Greint var frá því í Morgunblaðinu á laugardag að illmögulegt virtist að segja starfsmanninum, sem er ófaglærður, upp störfum án þess að veita honum áminningu fyrst og voru foreldrar drengsins mjög ósátt við þá niðurstöðu.
„Við nánari athugun innan leikskólasviðs Reykjavíkurborgar, þá teljum við að umrædd framkoma starfsmanns feli í sér svo alvarlegt brot að það sé með öllu ósamrýmanlegt stefnu og áherslum Reykjavíkurborgar um framkomu starfsmanna leikskóla við börn er þar dvelja,“ segir Ragnhildur Erla Bjarnadóttir, sviðstjóri leikskólasviðs Reykjavíkurborgar.
Umræddum starfsmanni hafi því nú verið vikið úr starfi og sé það m.a. gert með tilvísan í réttindi og skyldur starfsmanna, en samkvæmt því sem þar segir skal vísa starfsmanni „úr starfi fyrirvaralaust verði hann uppvís að grófu broti í starfi, enda valdi viðvera hans á vinnustað áframahaldandi skaða fyrir starfsemina, aðra starfsmenn og viðskiptavini.“ Enn fremur er það ákvæði skýrt í starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar að starfsmenn skuli gæta þess að framkoma þeirra og athafnir samrýmist því starfi sem að þeir gegna.
„Ég harma þennan atburð sem er fáheyrður,“ segir Ragnhildur Erla. „Ég er búin að starfa hjá leikskólum Reykjavíkur í 13 ár og man ekki eftir tilviki sem þessu.“ Hún kveður leikskólasvið ekki vita hvort að einhverjir eftirmálar verði af uppsögninni, en starfsmaðurinn hefur notið stuðnings síns stéttarfélags. „Það hefur lengi verið okkar aðalsmerki að 97-98% foreldra hafa sagt í könnunum að barni þeirra líði vel í leikskólanum og við viljum gera allt til þess að foreldrar geti treyst því að börnin séu alltaf örugg í leikskólanum.“