„Það gefur auga leið að forsendur fyrir fjölskyldur til að byggja upp heimili á þessu svæði eru brostnar,“ segir Arney Einarsdóttir lektor en hún var ein þeirra sem keyptu lóð í Úlfarsárdal. Þar eru nú sannkölluð draugahverfi. Götur og ljósastaurar, jafnvel hringtorg og undirgöng, en lítið sem ekkert mannlíf. Eftirstöðvar offjárfestingar í uppbyggingu fasteigna blasa við víða á höfuðborgarsvæðinu.
Í júlí í fyrra voru um 5.800 húsnæðisgrunnar, óseldar íbúðir og tómar lóðir í Mosfellsbæ, Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Þetta var niðurstaða umfangsmestu rannsóknar sem ráðist hefur verið í á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu og unnin var fyrir gamla Landsbankann af Ara Skúlasyni hagfræðingi. Meðal ástæðna fyrir því að ráðist var í rannsóknina var að litlar upplýsingar lágu fyrir, meðal annars hjá Fasteignamati ríkisins, um raunverulega stöðu á fasteignamarkaði.
„Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu verða að fara vandlega yfir það hvernig staðið var að uppbyggingu nýrra hverfa á síðustu árum. Það var augljóslega alltof hratt farið og það er mikill samfélagslegur kostnaður sem hefur hlotist af þessum mikla hraða,“ segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur. Kostnaður Orkuveitunnar vegna uppbyggingar nýrra hverfa á höfuðborgarsvæðinu, sem nú standa auð, er að minnsta kosti á þriðja milljarð.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.