Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður, sem ákærður var fyrir fjársvik með því að hafa sem milligöngumaður um sölu, gefið fimm eigendum stofnfjárbréfa í Sparisjóði Hafnarfjarðar ranga hugmynd um verðmæti bréfanna, var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Karl Georg var ákærður fyrir að hafa blekkt Sigurð Þórðarson, fyrrverandi ríkisendurskoðanda til að selja stofnfjárbréf í Sparisjóði Hafnarfjarðar á 25 milljónir hvert í stað 45 milljóna. Sigurður Þórðarson kom fram fyrir hönd og hafði milligöngu um sölu stofnfjárbréfa fyrir sig og fjóra aðra stofnfjáreigendur. Hvert um sig átti tvö stofnfjárbréf og námu bótakröfur fimmmenninganna samtals 200 milljónum króna á hendur Karli Georg.
„Ég er hissa á þessari niðurstöðu og tel hana ranga. Ég mun óska eftir því að þessum dómi verði áfrýjað til Hæstaréttar,“ sagði Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, þegar Arngrímur Ísberg, héraðsdómari hafði kveðið upp sinn dóm.