Með samkomulagi milli Blönduósbæjar og Háskólans á Hólum verður byggt upp háskólasetur á Blönduósi. Samkomulagið undirrituðu þeir Skúli Skúlason rektor á Hólum og Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri á Blönduósi nýverið.
Markmið setursins er áhersla á fræðslu á sviði strandmenningar og hafíss á norðurslóðum og að stunda rannsóknir og fræðslu á sviði textílfræða. Ennfremur verður lögð áhersla á að styðja við uppbyggingu hvers kyns rannsókna- og fræðslustarfa í héraðinu í samstarfi við fræða- og þekkingarsetur sem fyrir eru á svæðinu.
Menntamálaráðuneytið leggur Blönduósbæ til árlegan styrk upp á 17 milljónir króna og Háskólinn á Hólum ræður tvo sérfræðinga sem aðsetur hafa á Blönduósi til að sinna þessu verkefni en þeir verða jafnframt hluti af starfsliði ferðamálanefndar Hólaháskóla. Aðstaða háskólasetursins verður í Kvennaskólanum á Blönduósi. Arnar Þór Sævarsson bæjarstjóri bar þá von í brjósti að þetta starf yrði komið í fullan gang á 100 ára afmæli kvennaskólans árið 2012.