Lítil heimt af lánum

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is

Óstaðfest­ar fregn­ir herma að ein­ung­is um 30% af út­lán­um rík­is­bank­anna muni inn­heimt­ast að fullu, að því er Bjarni Bene­dikts­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins upp­lýsti í fyr­ir­spurn til Gylfa Magnús­son­ar viðskiptaráðherra á Alþingi í dag. Gylfi kveðst ekki geta staðfest hvort þetta sé rétt.

Bjarni var máls­hefj­andi utan dag­skrárum­ræðu um end­ur­reisn banka­kerf­is­ins í dag og vék þar í máli sínu að áður­nefnd­um fregn­um.

„Í millitíðinni hafa borist fregn­ir af því, óljós­ar reynd­ar, að rík­is­stjórn­in hafi fengið mat frá sín­um ráðgjöf­um um eigna­söfn­in í heild sinni. Þar kem­ur fram sam­kvæmt óljós­um heim­ild­um að óvenju­hátt hlut­fall af lána­safni bank­anna séu út­lán sem að ekki muni inn­heimt­ast nema að hluta, í sum­um til­fell­um ekki inn­heimt­ast að nokkru leyti, og að ein­ung­is í kring­um 30 pró­sent af út­lán­un­um muni inn­heimt­ast að fullu eða séu lán sem ekki þurfi að hafa áhyggj­ur af,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Lán­in eru mjög mis­jöfn  

Gylfi kveðst ekki geta staðfest hvort þetta hlut­fall væri rétt.

„Ég hef ekki séð nein­ar slík­ar töl­ur. Það ligg­ur auðvitað fyr­ir að lán­in eru mjög mis­jöfn. Hvað varðar lán til eign­ar­halds­fé­laga er allt út­lit fyr­ir að það komi lítið út úr því í mörg­um til­fell­um, alls ekk­ert öll­um,“ seg­ir Gylfi og held­ur áfram.

„Hins veg­ar eru önn­ur lán miklu betri og mörg ekki í neinu sér­stöku upp­námi, það er að segja að það stefn­ir allt í að þau verði greidd. Þau eru með góðan greiðanda og góð veð og munu verða greidd til fulls þegar fram líða stund­ir. Þetta er mjög mis­jafnt eft­ir því hvaða lána­flokka er verið að skoða. “

- Sérðu fyr­ir þér tíma­setn­ingu á því hvenær hægt verði að skýra frá eigna­stöðu nýju bank­anna?

„Fyrsta mat á eign­um sem fara á milli gömlu og nýju bank­anna á að liggja fyr­ir núna um mánaðar­mót­in. Þá fer þetta nátt­úru­lega að skýr­ast.“ 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert