Lítil heimt af lánum

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is

Óstaðfestar fregnir herma að einungis um 30% af útlánum ríkisbankanna muni innheimtast að fullu, að því er Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins upplýsti í fyrirspurn til Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra á Alþingi í dag. Gylfi kveðst ekki geta staðfest hvort þetta sé rétt.

Bjarni var málshefjandi utan dagskrárumræðu um endurreisn bankakerfisins í dag og vék þar í máli sínu að áðurnefndum fregnum.

„Í millitíðinni hafa borist fregnir af því, óljósar reyndar, að ríkisstjórnin hafi fengið mat frá sínum ráðgjöfum um eignasöfnin í heild sinni. Þar kemur fram samkvæmt óljósum heimildum að óvenjuhátt hlutfall af lánasafni bankanna séu útlán sem að ekki muni innheimtast nema að hluta, í sumum tilfellum ekki innheimtast að nokkru leyti, og að einungis í kringum 30 prósent af útlánunum muni innheimtast að fullu eða séu lán sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af,“ sagði Bjarni í ræðu sinni.

Lánin eru mjög misjöfn  

Gylfi kveðst ekki geta staðfest hvort þetta hlutfall væri rétt.

„Ég hef ekki séð neinar slíkar tölur. Það liggur auðvitað fyrir að lánin eru mjög misjöfn. Hvað varðar lán til eignarhaldsfélaga er allt útlit fyrir að það komi lítið út úr því í mörgum tilfellum, alls ekkert öllum,“ segir Gylfi og heldur áfram.

„Hins vegar eru önnur lán miklu betri og mörg ekki í neinu sérstöku uppnámi, það er að segja að það stefnir allt í að þau verði greidd. Þau eru með góðan greiðanda og góð veð og munu verða greidd til fulls þegar fram líða stundir. Þetta er mjög misjafnt eftir því hvaða lánaflokka er verið að skoða. “

- Sérðu fyrir þér tímasetningu á því hvenær hægt verði að skýra frá eignastöðu nýju bankanna?

„Fyrsta mat á eignum sem fara á milli gömlu og nýju bankanna á að liggja fyrir núna um mánaðarmótin. Þá fer þetta náttúrulega að skýrast.“ 

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert