Sluppu undan tveimur snjóflóðum

Hætturnar leynast víða. Mynd úr myndasafni.
Hætturnar leynast víða. Mynd úr myndasafni. mbl.is/Ómar

Tveir vélsleðamenn sluppu naumlega frá því að lenda í tveimur snjóflóðum sem féllu í Brunnárdal, sem er þröngur dalur skammt frá Húnavöllum, fyrr í dag. Félagar mannanna, sem komu á eftir, töldu í fyrstu að þeir hefðu lent í flóðinu og hófu leit. Það kom svo fljótlega í ljós að vélsleðakapparnir höfðu sloppið með skrekkinn.

„Það eru víða hætturnar. Maður verður að passa sig alls staðar þar sem er brattlendi,“ segir Jón Jóhannesson sem var á svæðinu um kl. 16:30 í dag ásamt þremur félögum sínum. Tveir þeirra fóru á undan inn dalinn. „Við erum um fimm mínútum á eftir þeim. Þá komum við að snjóflóði,“ segir Jón í samtali við mbl.is og bætir við að sporin hafi horfið undir flóðinu. Leit hófst í kjölfarið að vélsleðamönnunum en skömmu síðar kom í ljós að þeir höfðu sloppið. 

Jón segir að snjóflóðið hafi verið á bilinu 30-40 metrar á breidd og 4-6 metrar á dýpt. „Það bara fyllti í skálina.“ Aðspurður segir Jón að dalurinn, sem er um 16 km fyrir sunnan Blönduós, sé ekki nema um tæpur kílómetri á lengd. „Það var óhuggulegast að sjá ekkert hvað var hinu megin.“ Þetta hafi ekki verið ósvipað því að fylla skál af vatni.

Hann segir að félagar sínir hafi orðið einskis varir þegar fyrra flóðið féll. „En svo lenda þeir í öðru flóði bara ofar. Þeir rétt sleppa frá því,“ segir hann.

„Þetta er ekki fjölfarin leið. Og ég mæli ekki með henni fyrir menn sem þekkja ekki svæðið,“ segir Jón, en hann segist þekkja svæðið vel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert